Fótbolti

Essien og Cole gætu endað í steininum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Essien og Cole í sínum fyrsta leik í Indónesíu.
Essien og Cole í sínum fyrsta leik í Indónesíu. vísir/afp
Fyrrum Chelsea-mennirnir Michael Essien og Carlton Cole spila saman í Indónesíu en nú hefur komið í ljós að þeir eru ekki með atvinnuleyfi í landinu.

Félag þeirra í landinu, Persib Bandung, gekk ekki frá réttum pappírum fyrir leikmennina. Þeir eru aðeins með skammtímadvalarpassa í landinu og þeir mega því ekki stunda atvinnu í landinu.

Fari málið fyrir dóm gætu þeir átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi.

Framkvæmdastjóri Persib er hundfúll út í útlendingastofnun fyrir að vera með einhverja stæla út í félagið. Segir að landsmenn eigi frekar að fagna því að slíkir leikmenn vilji spila í landinu í stað þess að vera með stæla og veifa einhverri reglubók í andlitið í þeim.

Þeir félagar munu ekki spila með liðinu á meðan reynt verður að finna lausn á þessu máli en tímabilið byrjaði um síðustu helgi. Persib gerði markalaust jafntefli í fyrsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×