Sport

Þegar Hernandez sá dóttur sína í síðasta sinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hernandez sendir dóttur sinni fingurkoss. Það reyndist vera kveðjukoss föðurins sem nú er látinn aðeins 27 ára að aldri.
Hernandez sendir dóttur sinni fingurkoss. Það reyndist vera kveðjukoss föðurins sem nú er látinn aðeins 27 ára að aldri. vísir/getty

Það er aðeins vika síðan dæmdi morðinginn Aaron Hernandez sá fjögurra ára dóttur sína. Það var í síðasta skiptið sem þau hittust.

Hún var þá mætt í réttarsalinn þar sem faðir hennar var sakaður um tvöfalt morð. Hann var nokkru síðar sýknaður af þeim ásökunum en losnaði ekki úr steininum enda í lífstíðarfangelsi út af öðru morði. Lífstíðarfangelsi þar sem hann átti ekki möguleika á reynslulausn.

Þetta var í fyrsta sinn sem stúlkan unga mætti í réttarsalinn. Það var líka í síðasta skiptið sem hún sá föður sinn.

Sjá einnig: Hernandez svipti sig lífi

Stúlkan grét svo mikið heima hjá sér yfir því að fá aldrei að sjá pabba sinn að móðir hennar gaf það eftir að taka hana með.

Hernandez, sem er fyrrum stjarna í NFL-deildinni, átti augljóslega ekki von á því að sjá hana því honum brá er hann sá að dóttirinn var viðstödd. Það lifnaði þó fljótt yfir andliti hans og dóttir hans hresstist líka er hún sá föður sinn brosa.

Hernandez brosir til dóttur sinnar. vísir/getty

Það voru nokkrir bekkir á milli þeirra og fjöldi lögreglumanna en á þessu litla augnabliki voru þau faðir og dóttir.

Hernandez snéri sér alls fjórum sinnum við í stólnum meðan á yfirheyrslum stóð til þess að horfa á dóttur sína og brosa til hennar.

Er yfirheyrslum lauk varð hann að yfirgefa dómssalinn. Það gerði hann þó ekki fyrr en hann hafði sent dótturinni þrjá fingurkossa. Dóttirinn veifaði og grét svo er faðir hennar hvarf.

Þetta var átakanlegt fyrir alla sem í salnum sátu því þarna var aðeins lítil, saklaus stúlka sem vildi aðeins fá að vera með pabba sínum. Það gat hún ekki út af gjörðum hans.

Nákvæmlega viku síðar hengdi Hernandez sig í fangaklefanum sínum.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira