Innlent

Steingrímur Eyfjörð útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar

Anton Egilsson skrifar
Myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2017.
Myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2017. Mynd: Einar Falur Ingólfsson
Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður hefur verið útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2017. Þetta var tilkynnt í dag.

Í tilkynningu sem Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar sendi frá sér segir að margar tilnefningar hafi borist til nefndarinnar.

„Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar kallaði eftir tilnefningum til bæjarlistamanns snemma árs og bárust fjölmargar tilnefningar. Mat nefndarinnar var að árið 2017 yrði myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð bæjarlistamaður Hafnarfjarðar.“

Steingrímur er fæddur árið 1954 og nam myndlist bæði á Íslandi og í Hollandi. Fjölbreyttur ferill hans spannar heila fjóra áratugi en hann hefur sýnt verk sín hérlendis og erlendis bæði einn og með öðrum.

„Steingrímur hefur í verkum sínum farið inn á merkingarsvið heimspeki, vísinda, félags- og mannfræði þar sem viðfangsefni verkanna geta verið um jafnólíka hluti og trúmál, pólitík, dægurmenningu, íslenska þjóðmenningu og sögu. Verk hans snúast oft um það sem kalla má nútíma þjóðsögur, sem sækja efnivið sinn í dulspeki, samsæriskenningar og ýmiskonar hjávísindi,“segir jafnframt í fréttatilkynningunni.

Hlýtur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar greiðslu að upphæð eina milljón króna sem hvatningu til áframhaldandi sköpunar og virkni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×