Handbolti

Íslendingalið deildarmeistari í Svíþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslendingatríóið hjá Kristianstad. Arnar Freyr Arnarsson, Ólafur Guðmundsson og Gunnar Steinn Jónsson.
Íslendingatríóið hjá Kristianstad. Arnar Freyr Arnarsson, Ólafur Guðmundsson og Gunnar Steinn Jónsson. vísir/hanna
Kristianstad tryggði sér í dag deildarmeistaratitilinn í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta þegar liðið vann átta marka útisigur á HIF Karlskrona.

Kristianstad vann leikinn 32-24 en sigur liðsins var mjög öruggur. Kristianstad er þar með komið með 49 stig á toppi sænsku deildarinnar og ekkert lið getur náð þeim af stigum þrátt fyrir að ein umferð sé eftir af deildarkeppninni.

Þetta er þriðja árið í röð sem Kristianstad verður deildarmeistari en liðið hefur unnið sænska titilinn undanfarin tvö tímabil.

Kristianstad vann þarna sinn áttunda deildarsigur í röð en liðið lenti í smá vandræðum eftir að deildin fór af stað eftir HM-fríið og tapaði þá þremur leikjum á stuttum tíma.

Ólafur Guðmundsson skoraði 3 mörk úr 4 skotum og Gunnar Steinn Jónsson skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað en átti tvær stoðsendingar á félaga sína og fiskaði líka tvö víti.

Kristianstad var 14-11 yfir í hálfleik en liðið hafði forystuna eftir að Ólafur Guðmundsson kom liðinu í 7-6. Í seinni hálfleiknum var sigurinn síðan aldrei í hættu en hin tvö mörk Ólafs komu með stuttu millibili um miðjan hálfleikinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×