Enski boltinn

Íslendingur búinn að skrifa þrjá bækur um fótboltalið Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Árið 2002 komst Arngrímur Baldursson inn fyrir þröskuldinn hjá hinu sigursæla félagi Liverpool og það er alls ekki sjálfgefið fyrir Íslending. Hann hefur nú gefið út þrjár bækur um félagið.  Guðjón Guðmundsson hitti Arngrím og kannaði málið betur.

„Þetta byrjaði á því að ég og félagi minn Guðmundur Magnússon ákváðum að setja saman vefsíðu sem hét LFChistory.net. til að bæta úr skorti á tölfræðiupplýsingum um félagið á netinu,“ segir Arngrímur Baldursson.

„Við ókum okkur til og settum saman gagngrunn með öllum úrslitum í leikjum félagsins með markaskorum og liðsuppstillingum frá 1892. Þar með var þessi síða til. Hún hefur síðan notið sívaxandi vinsælda og hlotið viðurkenningar síðan. Menn sjá að þetta er alvöru síða og það er hægt að treysta upplýsingunum,“ segir Arngrímur.

Hróður síðunnar barst síðan alla leið inn á skrifstofu hjá Liverpool.

„Liverpool hefur samband og kaupir aðgang að tölfræðinni og um leið verður þetta að opinberri tölfræði félagsins sem var gríðarleg viðurkenning,“ segir Arngrímur. Fyrsta bókin hans um Liverpool kom síðan út árið 2011.

„Það var eigandi lítillar bókarútgáfu í Liverpool, sem er grjótharður Everton aðdáandi, sem gaf bókina út. Hann var margoft búinn að skoða vefinn og fannst það álitlegt sem var í gangi þarna hjá okkur. Hann vildi gefa út bók með öllum upplýsingum sem væri þá unnin upp úr vefsíðunni,“ segir Arngrímur.

Argrímur lét ekki deigan síga ásamt félaga sínum Guðmundi Magnússyni og réðist í stórvirki sem kom út árið 2013. Þar er á ferðinni biblía Liverpool.

„Þetta er Liverpool frá A til Z, allt um alla leikmenn félagsins og allt mögulegt um félagið. Það má líka finna upplýsingar um innviði félagsins,“ segir Arngrímur en hann var ekki hættur að skrifa bækur um félagið.

Á þessu ári kom út ævisaga Ronnie Moran, þjálfara og goðsagnar í sögu Liverpool. Bókin hefur fengið frábæra dóma á Bretlandseyjum og selst vel. Argrímur, eða Arnie Baldursson eins og hann skrifar sig úti, skrifaði bókina ásamt Carl Clemente og Paul Moran

„Hún kom út 28. febrúar, á 83. afmælisdegi Ronnie. Svo lést hann því miður þremur vikum síðar. Hann var búinn að þjást af æðaheilabilun í fimm ár,“ segir Arngrímur og bætir við:

„Liverpool og Real Madrid voru að keppa í goðsagnarleik á dögunum og þar þakkaði Steven Gerrard, Herra Liverpool, Ronnie Moran. fyrir sitt starf fyrir félagið. Þetta virðist vera orðið opinbert heiti á Ronnie Moran sem er mjög ánægjulegt út frá heiti bókarinnar,“ segir Arngrímur.

Það má sjá allt innslag Guðjón Guðmundssonar um Arngrím Baldursson og bækurnar hans í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×