Enski boltinn

Maður helgarinnar í enska: Leikur lausum hala á hægri vængnum hjá Sam Allardyce

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það hefur ekki alltaf blásið byrlega fyrir Wilfried Zaha, hinum 24 ára gamla kantmanni Crystal Palace, sem var potturinn og pannan í góðum sigri Palace á toppliði Chelsea um helgina.

Eftir draumafélagsskiptin til Manchester United árið 2013 virtist framtíðin vera björt en eftir tvö ár og aðeins tvo leiki fyrir United sneri hann aftur á heimaslóðir þar sem hann er nú óðum að verða helsta stjarnan í liði Sam Allardyce.

Allardyce hefur verið lengi að trekkja sína menn í gang eftir að hann tók við í desember en liðið er nú á uppleið eftir fjóra sigra í deildinni í röð. Þar hefur Zaha leikið aðalhlutverk, þá helst með því að leika lausum hala á hægri vængnum.

Hann hefur verið besti leikmaður liðsins í þeirri sigurhrinu sem nú stendur yfir og hefur lyft liðinu upp úr fallsæti.  

Á því var enginn undantekning um helgina gegn Chelsea. Hann var aðalhvatamaðurinn að endurkomu gestanna með því að skora og leggja upp mark á aðeins sex mínútum.

Zaha er sniðinn að kröfum úrvalsdeildarinnar með sínum gríðarlega hraða og leikni og ætti að geta náð langt, haldi hann áfram á sömu braut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×