Handbolti

Örlögin á toppi og botni ráðast í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH-ingar fagna sigrinum á Haukum í síðustu umferð.
FH-ingar fagna sigrinum á Haukum í síðustu umferð. Fréttablaðið/Ernir
Úrslitin í Olís-deild karla í handbolta ráðast í kvöld þegar lokaumferðin fer fram. FH dugir jafntefli gegn Selfossi til að verða deildarmeistari í fyrsta sinn í aldarfjórðung. Í Mýrinni berjast Stjarnan og Akureyri hins vegar fyrir líf

FH (1.) - Selfoss (5.)

FH-ingar eru með eins stigs forskot á ÍBV á toppi deildarinnar. Og sökum betri árangurs í innbyrðis viðureignum gegn ÍBV dugir FH jafntefli gegn Selfossi á heimavelli til að verða deildarmeistarar. Það gerðist síðast 1992 en það ár vann FH alla þrjá stóru titlana sem í boði voru; urðu Íslands-, bikar- og deildarmeistarar..

Selfoss lyfti sér upp í 5. sæti deildarinnar með sigri á Val í síðustu umferð og heldur því með jafntefli eða sigri á FH. Tapi Selfyssingar og Valsmenn vinna Eyjamenn endar Selfoss í 6. sætinu.

Valur (6.) - ÍBV (2.)

Eyjamenn fóru illa að ráði sínu þegar þeir gerðu jafntefli við Akureyri á heimavelli í síðustu umferð. Fyrir vikið þurfa þeir að treysta á hjálp frá Selfyssingum til að verða deildarmeistarar. Til að það gerist þarf ÍBV að vinna Val og treysta á að FH tapi fyrir Selfossi.

Valsmenn hafa gefið hressilega eftir í deildinni að undanförnu, m.a. vegna þátttöku í Áskorendabikar Evrópu þar sem liðið er komið í undanúrslit. Valur getur náð 5. sætinu vinni liðið ÍBV og Selfoss tapar fyrir FH á sama tíma. Valsmenn geta einnig misst 6. sætið í hendur Gróttu eða Fram. Þeir geta hins vegar ekki endað neðar en í 7. sæti.

Afturelding (4.) - Haukar (3.)

Fyrirfram er þetta minnst spennandi leikur kvöldsins. Afturelding endar í 4. sæti sama hvernig úrslit kvöldsins verða. Með tapinu fyrir FH í síðustu umferð misstu Haukar af deildarmeistaratitlinum. Þeir geta þó náð 2. sætinu ef þeir vinna Aftureldingu og ÍBV tapar fyrir Val.

Grótta (7.) - Fram (8.)

Grótta er örugg með sæti í úrslitakeppninni en liðið endar aldrei neðar en í 8. sæti. Seltirningar geta náð 6. sætinu ef þeir vinna Fram og Valur tapar fyrir ÍBV.

Fram er sennilega í flóknustu stöðunni af öllum liðum deildarinnar en strákarnir hans Guðmundar Helga Pálssonar geta endað í 6.-9. sæti. Fram er með betri árangur í innbyrðis viðureignum gegn Val og getur náð 6. sætinu með sigri á Gróttu, að því gefnu að Valur tapi fyrir ÍBV. Með sigri á Gróttu er Fram öruggt með sæti í úrslitakeppninni en tap eða jafntefli gæti þýtt að liðið endaði í 9. sæti.

Stjarnan (9.) - Akureyri (10.)

Þetta er hreinn úrslitaleikur um áframhaldandi sæti í Olís-deildinni. Stjarnan er með betri árangur í innbyrðis viðureignunum og dugir því jafntefli til að forðast 10. sætið. Jafn­tefli gæti einnig skilað Stjörnunni 8. sætinu og sæti í úrslitakeppninni ef Fram tapar fyrir Gróttu. Sigur er það eina sem kemur til greina hjá Akureyringum í kvöld, annars falla þeir niður í 1. deild.

Liðið sem endar í 9. sæti þarf að bíða til 9. maí eftir því hvort það heldur sæti sínu en þá kemur í ljós hvort liðum í Olís-deildinni verður fjölgað úr 10 í 12. Ef liðum verður fjölgað heldur liðið í 9. sæti sér í Olís-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×