Enski boltinn

Danny Mills: Shaw hefur enga afsökun fyrir því að vera of þungur og ekki í formi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shaw ku ekki æfa nógu vel né vera í nógu góðu formi.
Shaw ku ekki æfa nógu vel né vera í nógu góðu formi. vísir/getty
Danny Mills, fyrrum leikmaður Leeds United og fleiri liða, segir að Luke Shaw, leikmaður Manchester United, hafi enga afsökun fyrir því að vera ekki í formi.

José Mourinho, knattspyrnustjóri United, hefur gagnrýnt Shaw og sagt að hann æfi ekki nógu vel í samanburði við þá leikmenn sem hann er berjast við um stöðu í byrjunarliðinu.

Mills segir að Shaw, sem hefur aðeins leikið 15 leiki fyrir United í vetur, eigi sér engar málsbætur.

„Þetta snýst allt um aga og vilja. Það lítur út fyrir að Shaw leggi sig ekki allan fram. Hann hefur alla hæfileika í heiminum en þetta snýst á endanum um viðhorf,“ sagði Mills.

„Jafnvel þótt hann hafi verið meiddur þá er það ekki afsökun fyrir því að vera of þungur og að halda sér ekki í eins góðu formi og mögulegt er. Þetta er vinnan hans. Hann á sér engar málsbætur,“ bætti gamli bakvörðurinn við. Hann segir að dagar Shaws á Old Trafford séu senn taldir.

„Ég held að Mourinho hafi fengið nóg og hann geti ekki leyft honum að eitra út frá sér. Hefði Sir Alex Ferguson látið hann komast upp með þetta? Nei, Fergie hafi bara látið hann fara. Svo einfalt er það,“ sagði Mills.

United tekur á móti Everton klukkan 19:00 í kvöld. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.


Tengdar fréttir

Áttunda jafntefli United á heimavelli

Manchester United tapaði mikilvægum stigum í baráttunni um Meistaradeildarsæti þegar liðið gerði markalaust jafntefli við West Brom á Old Trafford í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×