Enski boltinn

Eigingjarn Savage vildi að Gamst myndi klúðra dauðafæri svo hann missti ekki af úrslitaleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Glæsilegar strípur hjá Morten Gamst og Robbie Savage á árum áður.
Glæsilegar strípur hjá Morten Gamst og Robbie Savage á árum áður. vísir/getty
Robbie Savage, fyrrverandi leikmaður Blackburn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, vildi ekki að liðið kæmist í úrslitaleik enska bikarsins árið 2007 því hann var meiddur.

Hann viðurkenndi þetta í hlaðvarpsþættinum Flintoff, Savage and the Ping Pong Guy, sem hann stýrir ásamt krikketgoðinu Freddie Flintoff hjá breska ríkisútvarpinu.

Savage fékk fyrirliðabandið hjá Blackburn 2006/2007 sem var spennandi tímabil hjá liðinu. Það var í Evrópukeppni og gekk vel í deild og bikar. Savage var búinn að skora tvö mörk í Evrópu áður en hann fótbrotnaði í öðrum leik sem fyrirliði og missti til dæmis af leikjum á móti Bayer Leverkusen í 16 liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða.

Án Savage komst Blackburn alla leið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar en þar mætti liðið Chelsea á Old Trafford. Með sigri hefðu lærisveinar Mark Hughes komist í úrslitaleikinn á Wembley.

„Ég veit að þetta hljómar ekki vel en ég sat þarna og hugsaði að ef við vinnum leikinn þarf ég að horfa á strákana fara í gegnum allan undirbúninginn fyrir úrslitaleikinn og prófa nýju jakkafötin á meðan ég væri bara gleymdur,“ segir Savage.

Blackburn fékk dauðafæri til að komast alla leið en norski vængmaðurinn Morten Gamst Pedersen fékk boltann galopinn fyrir marki Chelsea þegar ein mínúta var eftir af framlengingunni í stöðunni 1-1. Sá norski brenndi af og Chelsea vann leikinn, 2-1.

„Ég man að ég hugsaði: „Gerðu það fyrir mig, ekki skora.“ Ég man að ég var svo ánægður þegar hann klúðraði en svo töpuðum við leiknum, Frank Lampard skaut Chelsea áfram. Þegar ég hitti strákana eftir leik leið mér eins og asna því formaðurinn, stjórinn Mark Hughes og strákarnir voru niðurbrotnir,“ segir Robbie Savage.

Hljóðbrotið má heyra hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×