Enski boltinn

Zlatan snýr aftur í kvöld | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic snýr aftur í lið Manchester United þegar það tekur á móti Everton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, getur orðið fyrsti stjórinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að vinna þrjá leiki í röð á Old Trafford. Síðustu tvö tímabil stýrði hann Southampton til sigurs í Leikhúsi draumanna.

Everton getur jafnað United að stigum með sigri í kvöld. United þarf hins vegar nauðsynlega á þremur stigum að halda í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Þrír aðrir leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en þeir hefjast allir klukkan 18:45.

Leicester, sem hefur unnið alla sína leiki eftir að Craig Shakespeare tók við, fær botnlið Sunderland í heimsókn. Lærisveinar Davids Moyes eru átta stigum frá öruggu sæti og tap í kvöld færir þá nær B-deildinni.

Burnley tekur á móti Stoke City. Bæði lið töpuðu í síðustu umferð en Burnley hefur ekki unnið í síðustu fjórum leikjum sínum.

Þá mætast Watford og West Brom á Vicarage Road. Bæði lið sigla lygnan sjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×