Enski boltinn

Klopp: Því miður gæti Mané verið frá út leiktíðina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Læknateymi Liverpool skoðar Sadio Mané í Bítlaborgarslagnum.
Læknateymi Liverpool skoðar Sadio Mané í Bítlaborgarslagnum. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, veit ekki enn þá hvort hann geti spilað Sadio Mané meira á tímabilinu eftir að framherjinn magnaði meiddist illa á móti Everton um helgina.

Mané þurfti að fara af velli eftir samstuð við Leighton Baines í Bítlaborgarslagnum en mögulegt er að hann taki ekki frekari þátt með Liverpool á þessari leiktíð.

„Því miður er möguleiki að hann verði frá út leiktíðina en af hverju ætti ég að segja það núna?“ sagði Klopp þegar hann var spurður á blaðamannafundi í dag hvort tímabilið væri búið hjá Mané.

Eina sem er öruggt í þessu öllu saman er að Senegalinn verður ekki með á móti Bournemouth annað kvöld.

„Það er ekkert 100 prósent með meiðslin enn þá. Við þurfum að bíða aðeins með þetta en ég get staðfest að hann verður ekki klár á morgun,“ sagði Jürgen Klopp.

Ljóst er að það yrði mikið áfall fyrir Liverpool að missa Mané út í baráttunni um Meistaradeildarsæti en hann er búinn að skora þrettán mörk og leggja upp sex í úrvalsdeildinni eftir komu sína frá Southampton.

Adam Lallana og Jordan Henderson verða líka frá vegna meiðsla gegn Bournemouth á morgun en Daniel Sturridge er byrjaður að æfa aftur eftir meiðsli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×