Körfubolti

Curry og félagar tóku í nótt annað met af Jordan og Bulls-liðinu fræga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr sem þjálfari Golden State Warriors í dag og leikmaður Chicago Bulls í gamla daga.
Steve Kerr sem þjálfari Golden State Warriors í dag og leikmaður Chicago Bulls í gamla daga. Vísir/Samsett/Getty
Golden State Warriors vann síðustu nótt sinn 64. leik á tímabilinu í NBA-deildinni og bætti þar sem met sem var í eigu Chicago Bulls-liðsins frá 1995 til 1998. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Golden State tekur met af þessu liði Michael Jordan.

Golden State Warriors hefur unnið 204 leiki á síðustu þremur tímabilum en Bulls-liðið vann 203 leiki á fyrrnefndum þremur tímabilum á tíunda áratug síðustu aldar.

Steve Kerr tók við liði Warriors fyrir 2014-15 tímabilið og síðan hefur liðið unnið 204 af 242 leikjum sínum eða 84,3 prósent leikjanna.

Golden State Warriors liðið tók í fyrra metið af Chicago Bulls yfir flesta sigurleiki á einu tímabili með því að vinna 73 af 82 leikjum sínum. Chicago Bulls vann 72 af 82 leikjum tímabilið 1995-96.

Steve Kerr var einmitt leikmaður Chicago Bulls á þessum tíma og spilaði þá 214 af 246 leikjum liðsins en hann kom við sögu í 178 af þessum 203 sigrum.

Sigurinn í nótt var tólfti sigurinn í röð hjá Stephen Curry og félögum en Curry hefur spilað frábærlega undanfarnar vikur. Í þessum tólf leikjum er hann með 26,3 stig og 8,0 stoðsendingar að meðaltali þar sem hefur skorað 4,7 þrista í leik og hitti úr 46 prósent skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna.

Golden State fær fjóra leiki í viðbótar til að bæta metið enn frekar en vinnist þeir allir jafnar Warriors-liðið einnig metið yfir flest sigra á tveimur samliggjandi tímabilum sem er í eigu fyrrnefnds Bulls-liðs. Chicago Bulls vann 141 leik tímabilinu 1995-96 og 1996-97 en Steve Kerr spilaði þá alla.



Besta þriggja ára sigurhlutfallið í NBA-deildinni:

Golden State Warriors 2014-2017

204 sigrar - 38 töp

84,3 prósent sigurhlutfall

2014-15: 67 sigrar - 15 töp

2014-15: 73 sigrar - 9 töp

2014-15: 64 sigrar - 14 töp

Chicago Bulls 1995-1998

203 sigrar - 43 töp

82,5 prósent sigurhlutfall

1995-96: 72 sigrar - 10 töp

1996-97: 69 sigrar - 13 töp

1997-98: 62 sigrar - 20 töp

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×