Enski boltinn

Hazard hetjan í stórleiknum | Öll úrslit kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chelsea-menn fagna fyrra marki Hazards.
Chelsea-menn fagna fyrra marki Hazards. vísir/getty
Eden Hazard skoraði bæði mörk Chelsea þegar liðið lagði Manchester City að velli, 2-1, í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea er því áfram með sjö stiga forskot á toppnum. City er hins vegar í 4. sætinu.

Hazard kom Chelsea yfir á 10. mínútu með skoti sem fór af Vincent Kompany og inn en Sergio Agüero jafnaði metin á 26. mínútu eftir mistök hjá Thibaut Courtois í marki Chelsea.

Á 35. mínútu fékk Chelsea svo vítaspyrnu. Hazard fór á punktinn en Willy Caballero varði slaka spyrnu hans. Hazard hirti hins vegar frákastið og skoraði sigurmarkið. Lokatölur 2-1, Chelsea í vil.

Bournemouth náði í gott stig á Anfield.vísir/getty
Fimm aðrir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Joshua King tryggði Bournemouth jafntefli gegn Liverpool þegar hann jafnaði metin í 2-2 þremur mínútum fyrir leikslok.

Gestirnir komust yfir með marki Beniks Afobe á 7. mínútu en Philippe Coutinho jafnaði metin fimm mínútum fyrir hálfleik. Divock Origi kom Liverpool yfir á 59. mínútu en King átti síðasta orðið eins og áður sagði.

Mesut Özil skoraði og lagði upp mark í 3-0 sigri Arsenal á West Ham United.

Með sigrinum lyfti Arsenal sér upp fyrir Manchester United og í 5. sætið. West Ham er hins vegar farið að nálgast fallsvæðið eftir fjögur töp í röð.

Özil kom Arsenal yfir á 58. mínútu og 10 mínútum síðar lagði hann upp mark fyrir Theo Walcott. Olivier Giroud skoraði svo þriðja mark Arsenal sjö mínútum fyrir leikslok.

Son og félagar áttu ótrúlegan endasprett gegn Swansea.vísir/getty
Tottenham tryggði sér 1-3 sigur á Swansea City með frábærum endaspretti. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka var Swansea með 1-0 forystu, þökk sé marki Waynes Routlegde.

Dele Alli hóf endurkomuna þegar hann jafnaði metin á 88. mínútu. Son Heung-Min kom Spurs yfir þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma og þremur mínútum síðar skoraði Christian Eriksen þriðja markið og gulltryggði sigur Tottenham sem er áfram sjö stigum á eftir Chelsea.

Hull City nýtti sér tap Swansea og kom sér upp úr fallsæti með 4-2 sigri á Middlesbrough á heimavelli.

Álvaro Negredo kom Boro yfir strax á 5. mínútu en Hull svaraði með þremur mörkum. Lazar Markovic, Oumar Niasse og Abel Hernández á skotskónum. Marten de Roon minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Harry Maguire negldi síðasta naglann í kistu Boro þegar hann skoraði á 70. mínútu. Lokatölur 4-2, Hull í vil og Boro er komið með annan fótinn niður í B-deildina.

Ward-Prowse fagnar eftir að hafa komið Southampton í 3-1 gegn Crystal Palace.vísir/getty
Southampton stöðvaði fjögurra leikja sigurgöngu Crystal Palace með 3-1 sigri í leik liðanna á St. Mary's vellinum.

Christin Benteke kom Palace yfir á 31. mínútu en Nathan Redmond jafnaði metin á lokamínútu fyrri hálfleiks. Staðan var svo jöfn allt fram á 84. mínútu þegar Maya Yoshida kom Dýrlingunum yfir. Og aðeins mínútu síðar skoraði James Ward-Prowse og kom Southampton í 3-1 sem urðu lokatölur leiksins.

Southampton er í 9. sæti deildarinnar en Palace í því sextánda.

Úrslit kvöldsins:

Chelsea 2-1 Man City

1-0 Eden Hazard (10.), 1-1 Sergio Agüero (26.), 2-1 Hazard (35.).

Liverpool 2-2 Bournemouth

0-1 Benik Afobe (7.), 1-1 Philippe Coutinho (40.), 2-1 Divock Origi (59.), 2-2 Joshua King (87.).

Arsenal 3-0 West Ham

1-0 Mesut Özil (58.), 2-0 Theo Walcott (68.), 3-0 Olivier Giroud (83.).

Swansea 1-3 Tottenham

1-0 Wayne Routledge (11.), 1-1 Dele Alli (88.), 1-2 Son Heung-Min (90+1.), 1-3 Christian Eriksen (90+4.).

Hull 4-2 Middlesbrough

0-1 Álvaro Negredo (5.), 1-1 Lazar Markovic (14.), 2-1 Oumar Niasse (27.), 3-1 Abel Hernández (33.), 3-2 Marten de Roon (45+1.), 4-2 Harry Maguire (70.).

Southampton 3-1 Crystal Palace

0-1 Christian Benteke (31.), 1-1 Nathan Redmond (45.), 2-1 Maya Yoshida (84.), 3-1 James Ward-Prowse (85.).

Fylgst var með gangi mála í kvöld og má sjá það hér að neðan.

21:00 Öllum leikjum kvöldsins er lokið. Lesa má um þá hér að ofan.

20:45: Joshua King að jafna fyrir Bournemouth á Anfield! Staðan 2-2.

20:36: Tottenham-menn eru að ganga af göflunum! Mörk frá Son Heung-Min og Christian Eriksen og sigurinn er Spurs. Þvílík vonbrigði fyrir Gylfa og félaga!

20:32: Olivier Giroud skorar þriðja mark Arsenal gegn West Ham! Góður sigur hjá Arsenal í uppsiglingu.

20:30: Dele Alli jafnar metin gegn Swansea! Fimmtánda mark enska landsliðsmannsins á tímabilinu.

20:28: Allt að gerast á St. Mary's! Southampton með tvö mörk á jafn mörgum mínútum og staðan orðin 3-1. Maya Yoshida og James Ward-Prowse á skotskónum.

20:18: Divock Origi kemur Liverpool í forystu gegn Bournemouth! Origi skallar boltann í netið eftir fyrirgjöf Georginio Wijnaldum! Belginn búinn að skora í tveimur leikjum í röð.

20:14: Tröllkarlinn Harry Maguire kemur Hull í 4-2 gegn Boro! Tígrarnir eru samt enn í fallsæti því Swansea er að vinna Tottenham.

20:11: TheoWalcott kemur Arsenal í 2-0 eftir sendingu frá Özil! Walcott skoraði einnig í 2-2 jafnteflinu við City á sunnudaginn.

20:05: MARK á Emirates!!! Mesut Özil kemur Arsenal yfir! Stefnir í fimmta tap West Ham í röð.

19:42: Coutinho! Brassinn jafnar gegn Bournemouth þegar fimm mínútur eru til hálfleiks. Hans áttunda mark í ensku úrvalsdeildinni.

19:37: Það er kominn hálfleikur í fjórum leikjum. Marten de Roon minnkaði muninn fyrir Boro í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Nathan Redmond er búinn að jafna fyrir Southampton gegn Palace. Swansea leiðir enn gegn Tottenham og við bíðum áfram eftir mörkum á Emirates.

19:35: Chelsea komið yfir á ný!!! Fernandinho sparkar Pedro niður og Mike Dean bendir á punktinn. Hazard tekur spyrnuna sem er slök og Willy ver. Hazard tekur hins vegar frákastið og skorar! 2-1 fyrir Chelsea.

19:28: Leroy Sané sleppur einn í gegn en Courtois ver! City-menn eru sterkari aðilinn þessa stundina.

19:25: MARK!!! Sergio Agüero jafnar fyrir City á Brúnni! Thibaut Courtois með lélega sendingu, David Silva fær boltann og á skot sem Belginn ver út í teiginn, beint fyrir fætur Agüeros. Hans 15. deildarmark í vetur.

19:20: Hull er komið í 3-1! Oumar Niasse og Abel Hernández búnir að skora. Ef vörnin hjá Boro er líka farin að bila þá er útlitið orðið ansi dökkt. Christian Benteke er líka búinn að koma Palace yfir gegn Southampton. Strákarnir hans Stóra Sams eru óstöðvandi þessa dagana.

19:10: MARK á Brúnni! Eden Hazard kemur Chelsea yfir í stórleiknum gegn City! Willy Caballero leit ekki vel út í markinu þarna. Benik Afobe er einnig búinn að koma Bournemouth yfir á Anfield.

19:00: Swansea er komið yfir með marki Waynes Routhledge. Þá er Lazar Markovic búinn að jafna fyrir Hull gegn Boro. Afar mikilvægur leikur á KCOM vellinum.

18:50: Fyrsta markið er komið og það kemur úr óvæntri átt því Boro var að komast yfir gegn Hull. Álvaro Negredo með markið eftir sendingu frá Adama Traoré.

18:45: Góða kvöldið! Það er búið að flauta til leiks á fjórum völlum. Klukkan 19:00 hefjast svo tveir leikir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×