Enski boltinn

Swansea hefur ekki unnið í tæpa átta mánuði án þess að Gylfi búi til mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson á ferðinni með boltann í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson á ferðinni með boltann í gær. Vísir/Getty
Swansea City var 1-0 yfir á móti Tottenham í gærkvöldi þegar aðeins þrjár mínútur voru eftir af leiknum og allir stuðningsmenn Swansea á Liberty Stadium voru farnir að sjá þrjú mikilvæg stig í hillingum.

Tottenham jafnaði metin á 88. mínútu og tryggði sér síðan 3-1 sigur með tveimur mörkum í uppbótartíma. Leikmenn Swansea stóðu því uppi stigalausir og hafa aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

Wayne Routledge hafði komið Swansea City í 1-0 strax á 11. mínútu eftir stoðsendingu frá Jordan Ayew. Gylfi Þór Sigurðsson átti ekki þátt í markinu sem leit lengi vel út fyrir að ætlaði að verða sigurmarkið í leiknum.

Svo varð þó ekki og Swansea hefur ekki unnið í tæpa átta mánuði án þess að Gylfi búi til mark með því annaðhvort að skora sjálfur eða leggja upp fyrir félaga sína.

Í síðustu sjö sigurleikjum Swansea hefur Gylfi komið að marki í þeim öllum og er í þeim með samtals fjögur mörk og sex stoðsendingar. Hann hefur því átt beinan þátt í tíu mörkum Swansea í síðustu sjö sigurleikjum liðsins.

Swansea vann síðasta sigur í ensku úrvalsdeildinni án þess að Gylfi ætti þátt í marki í fyrstu leik tímabilsins. Swansea vann þá 1-0 sigur á Burnley þar sem Leroy Fer skoraði eina mark leiksins.  Þessi leikur fór fram 13. ágúst og það eru því liðnir sjö mánuðir og 24 dagar síðan að Swansea vann sigur í ensku úrvalsdeildinni án þess að Gylfi skapaði mark.



Gylfi Þór Sigurðsson og síðustu sjö sigurleikir Swansea City í ensku úrvalsdeildinni:

3-2 sigur á Burnley - Stoðsending

2-0 sigur á Leicester - Stoðsending

2-1 sigur á Southampton - Sigurmark og stoðsending

3-2 sigur á Liverpool - Sigurmark

2-1 sigur á Crystal Palace - Stoðsending

3-0 sigur á Sunderland - Mark og stoðsending

5-4 sigur á Crystal Palace - Mark og stoðsending

Samtals:

7 leikir

4 mörk

6 stoðsendingar

10 sköpuð mörk


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×