Lífið

Að vinna með gasgrímu og vika í þjónustuveri meðal verstu starfanna

Guðný Hrönn skrifar
Kött Grá Pjé, Rúnar Eff og Hrafn Jónsson rifja upp leiðinlegasta starfið sem þeir hafa unnið.
Kött Grá Pjé, Rúnar Eff og Hrafn Jónsson rifja upp leiðinlegasta starfið sem þeir hafa unnið.
Vinnan göfgar manninn og allt það. En það verður nú samt að viðurkennast að sum störf eru einfaldlega verri en önnur. Lífið fékk nokkra einstaklinga til að segja frá versta starfi sem þeir hafa unnið.

Kött Grá Pjé, listamaður: „Sumarið sem ég varð tvítugur vann ég í kúfiskverksmiðju á Þórshöfn á Langanesi. Ég er með einhverskonar ofnæmi, svo ég þurfti alltaf að vera með gasgrímu sem var tengd í súrefnisleiðslur í loftinu, dró helvítis slönguna með mér um verksmiðjuna. Um mitt sumar stakk ég af, ók bara til Akureyrar og sagði fuckit.“

Friðrik Ómar Hjörleifsson, söngvari: „Tvímælalaust var það bæjarvinnan þegar ég var unglingur á Dalvík.Oj, hvað ég nennti því aldrei. Finnst fátt leiðinlegra en að slá og reita arfa. Aldrei aftur!“

Hrafn Jónsson, kvikmyndagerðarmaður og pistlahöfundur: „Ég hef átt margar frábærar upplifanir á vinnumarkaði. Ég vann til dæmis einu sinni á vídjóleigu þar sem var svona klámmyndamappa undir borði sem að gamlir kallar í rykfrökkum komu reglulega og skoðuðu. Svo vann ég einu sinni á framköllunarstofu þar sem gamlir kallar í rykfrökkum komu reglulega með filmur í framköllum sem innihéldu myndir af þeim í innilegum ástarlotum - hvort sem það var með öðrum eða bara sjálfum sér. Svo var mér líka einu sinni sagt upp af Ásgeiri Kolbeins.“

„Eina virkilega slæma upplifunin sem ég man eftir af vinnumarkaði var þegar ég vann eina viku í þjónustuveri hjá fjarskiptafyrirtæki. Í alvöru, það er algjör Normandý-stemning hverja einustu lifandi sekúndu hjá svona þjónustuverum; „ROUTERINN MINN VIRKAR EKKI!“, „AF HVERJU ER SÍMREIKNINGURINN MINN SVONA HÁR?“, „ÉG HATA YKKUR OG ALLT SEM ÞIÐ STANDIÐ FYRIR!“. Ég eyddi einu sinni góðum 40 mínútum í að reyna að leiðbeina einhverjum gömlum manni, líklega í rykfrakka, hvernig hann ætti að tengja routerinn sinn. Lexían er sú að það fást þúsund karmastig fyrir að vera góður og blíður við þjónustufólk.“

Rúnar Eff Rúnarsson, tónlistamaður: „Ég held að versta vinna sem ég hef prufað hljóti að vera sjómennska, ég varð svo hrikalega sjóveikur að ég lét mér nægja þennan eina túr, og eftirlét alvöru karlmönnum plássið. Ég ætla bara að halda mig við tónlistina.“

 

Árelía Eydís Guðmundssdóttir, dósent við HÍ og höfundur: „Í öllum störfum eru „verstu“ augnablik og bestu. Í starfi mínu sem háskólakennari getur versta augnablikið verið þegar ég byrja að fara yfir ritgerðir og próf en síðan finnst mér það skemmtilegt eftir smá stund. í starfi mínu sem rithöfundur getur versta augnablikið verið þegar ég horfi á skjáinn tómeygð og óvissan er yfirþyrmandi, en síðan eftir smá stund er tóninn sleginn.“

„Þegar ég vann í fiski fannst mér versta augnablikið vera þegar hringt var úr pásu og maður þurfti að drepa í rettunni og gangi til verks en oftast var svo gaman eftir smá. Í starfi mínu í fríhöfninni var versta augnablikið að vakna klukkan fimm að morgni og fara til vinnu en eftir að ég var mætt var oft fjör. Í starfi mínu á Tomma hamborgurum fannst mér verst að þrífa grillið eftir törn en gott þegar það varð spegilfínt. Í starfi mínu í sjoppu fannst mér verst þegar viðskiptavini vantaði en þá var það útgáfa Ísfólksins sem bjargaði mér. Öll störf hafa vond og góð augnablik og allt þar á milli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×