Viðskipti innlent

Svanhildur segir engin átök í stjórn VÍS

Haraldur Guðmundsson skrifar
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir var kjörin stjórnarformaður VÍS í síðasta mánuði.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir var kjörin stjórnarformaður VÍS í síðasta mánuði.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, stjórnarformaður VÍS, segir að engin átök séu í stjórn tryggingafélagsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún sendi fjölmiðlum nú fyrir stundu vegna umfjöllunar Morgunblaðsins í dag. Í frétt blaðsins segir að óánægja sé meðal lífeyrissjóða í hluthafahópi VÍS um að áherslur félagsins færist frá vátryggingum til aukinnar fjárfestingarstarfsemi. Líkur standi til að krafist verði hluthafafundar og stjórnarkjörs í tryggingafélaginu. 

„Eins og kom fram í bréfi mínu til stærri hluthafa í félaginu, sem hefur að hluta verið birt í öðrum fjölmiðlum, þá er það „ekki markmið stjórnar að kollvarpa eða gjörbreyta því starfi sem unnið er innan fyrirtækisins. Markmið stjórnarinnar er skýrt og það er að ná betri tökum á rekstri tryggingarfélagsins VÍS og gera fyrirtækið okkar að betra félagi sem stendur betur að vígi í samkeppni,“ segir Svanhildur og vísar í bréf sem Vísir fjallaði um í síðustu viku.

„Í bréfinu var einnig áréttað „að stefnumótunarvinna félagsins, ákvörðun um kaup félagsins í Kviku banka og hugmyndavinna tengd þeim kaupum var unnin af forstjóra og þeirri stjórn sem sat fram að síðasta aðalfundi," segir Svanhildur í yfirlýsingunni. 

Stjórnarformaðurinn segir þar einnig að flest samanburðarviðmið í rekstri tryggingarfélaganna Sjóvá, TM og VÍS séu því síðastnefnda óhagstæð og hafi verið það í nokkur ár. Hún hafi deilt áhyggjum sínum af þróun og rekstri VÍS í aðdraganda aðalfundar félagsins. 

„Viðmælendur deildu þessum áhyggjum enda ábyrgir fyrir eigin fjárfestingum eða arðsemi og ávöxtun sjóðfélaga sinna. Í þessum samtölum lagði ég áherslu á nauðsyn þess að ná fram breytingum á stjórn og að nýr stjórnarformaður yrði kjörinn til að ná árangri í rekstri félagsins. Ég gerði hins vegar aldrei tilkall til sætis stjórnarformanns, enda finnst mér slíkt óeðlilegt,“ segir Svanhildur.

„Í aðdraganda aðalfundar VÍS hf. og þar af leiðandi fyrsta fundar nýkjörinnar stjórnar, fór af stað óeðlilegur þrýstingur ákveðinna aðila á það hvernig nýkjörin stjórn skyldi skipta með sér verkum. Ég læt ekki beita mig þrýstingi og það er ekki hlutverk mitt eða hluthafa VÍS að tryggja persónulega hagsmuni einstakra aðila á kostnað hluthafa VÍS. Ég vil taka það fram að á fundum mínum með forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna, þá kom aldrei fram þrýstingur þess efnis að Herdís yrði formaður og öll aðkoma þeirra að málinu mjög fagleg og til fyrirmyndar.

Það virðist því miður oft vera svo í umfjöllun fjölmiðla að litið sé á lífeyrissjóðina í landinu sem einn aðila, það er auðvitað ekki raunin. [...] Snúist þetta hins vegar um hver sé með völd í félaginu og fyrir hvern viðkomandi situr í stjórn, óháð þekkingu og reynslu, þá eru öll gildi um að góða stjórnarhætti fokin út í veður og vind.“

Yfirlýsing Svanhildar í heild sinni:

Það eru engin átök í stjórn VÍS. Það var sjálfkjörið í stjórn sem þýðir að einungis fimm aðilar gáfu kost á sér til stjórnarsetu. Þegar kom að því að stjórn skipti með sér verkum þá komu upp tvær tillögur um formann stjórnar og ég varð fyrir valinu.

Eins og kom fram í bréfi mínu til stærri hluthafa í félaginu, sem hefur að hluta verið birt í öðrum fjölmiðlum, þá er það "ekki markmið stjórnar að kollvarpa eða gjörbreyta því starfi sem unnið er innan fyrirtækisins. Markmið stjórnarinnar er skýrt og það er að ná betri tökum á rekstri tryggingarfélagsins VÍS og gera fyrirtækið okkar að betra félagi sem stendur betur að vígi í samkeppni. Það er engin launung að rekstur VÍS hefur verið lakari en samkeppnisaðilanna undanfarin ár og það er eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við. Þar mun áhersla nýrrar stjórnar liggja."  

Í bréfinu var einnig áréttað "að stefnumótunarvinna félagsins, ákvörðun um kaup félagsins í Kviku banka og hugmyndavinna tengd þeim kaupum var unnin af forstjóra og þeirri stjórn sem sat fram að síðasta aðalfundi."   

Í aðdraganda aðalfundar VÍS hf. hitti ég marga af stærstu hluthöfum félagsins. Ég ræddi áhyggjur mínar af þróun og rekstri félagsins. Flest samanburðarviðmið í rekstri tryggingarfélaganna eru VÍS óhagstæð og hafa verið það í nokkur ár.  Viðmælendur deildu þessum áhyggjum enda ábyrgir fyrir eigin fjárfestingum eða arðsemi og ávöxtun sjóðfélaga sinna. Í þessum samtölum lagði ég áherslu á nauðsyn þess að ná fram breytingum á stjórn og að nýr stjórnarformaður yrði kjörinn til að ná árangri í rekstri félagsins. Ég gerði hins vegar aldrei tilkall til sætis stjórnarformanns, enda finnst mér slíkt óeðlilegt.

Ég lagði líka mikla áherslu á að það væri góð starfshæfni í stjórninni þar sem þekking og reynsla allra stjórnarmanna myndi nýtast vel. 

Þegar framboðsfrestur til stjórnar rann út var ljóst að það yrði sjálfkjörið í stjórn VÍS og er erfitt að túlka það á annan hátt en að fjárfestum hafi litist vel á samsetningu stjórnarinnar og það sem ég og aðrir stjórnarmenn höfðum fram að færa. 

Í aðdraganda aðalfundar VÍS hf. og þar af leiðandi fyrsta fundar nýkjörinnar stjórnar, fór af stað óeðlilegur þrýstingur ákveðinna aðila á það hvernig nýkjörin stjórn skyldi skipta með sér verkum. Ég læt ekki beita mig þrýstingi og það er ekki hlutverk mitt eða hluthafa VÍS að tryggja persónulega hagsmuni einstakra aðila á kostnað hluthafa VÍS.

Ég vil taka það fram að á fundum mínum með forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna, þá kom aldrei fram þrýstingur þess efnis að Herdís yrði formaður og öll aðkoma þeirra að málinu mjög fagleg og til fyrirmyndar. 

Það virðist því miður oft vera svo í umfjöllun fjölmiðla að litið sé á lífeyrissjóðina í landinu sem einn aðila, það er auðvitað ekki raunin. Lífeyrissjóðirnir eru fjölmargir mismunandi sjóðir sem hver og einn hefur sjálfstæða skoðun á þeim fjárfestingum sem sjóðurinn tekur þátt í. Sjóðirnir gæta hagsmuna mismunandi sjóðsfélagahópa, en það ætti þó að vera skýrt sameiginlegt markmið þeirra og í raun allra hluthafa VÍS hf. að vilja hámarka árangur félagsins, ávöxtun og arðsemi fjárfestingarinnar.

Gengisþróun VÍS síðustu tólf mánuði hefur verið 29.01% samanborið við 54,41% hjá Sjóvá og 66,29% hjá TM. 

Meti hluthafar VÍS hf. að núverandi stjórn sé ekki til þess fallin að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri og betri árangri hjá fyrirtækinu í heild að þá er það réttur þeirra að kalla saman hluthafafund. Snúist þetta hins vegar um hver sé með völd í félaginu og fyrir hvern viðkomandi situr í stjórn, óháð þekkingu og reynslu, þá eru öll gildi um að góða stjórnarhætti fokin út í veður og vind. Ég sit í stjórn VÍS hf. fyrir alla hluthafa félagsins og veit að meðstjórnendur mínir gera það líka. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×