Viðskipti innlent

Hlutafé Meniga aukið um 900 milljónir

Haraldur Guðmundsson skrifar
Meniga þróar og selur fjármála- og markaðslausnir.
Meniga þróar og selur fjármála- og markaðslausnir.
Hlutafjármögnun hugbúnaðarfyrirtækisins Meniga að upphæð 7,5 milljónir evra, jafnvirði 900 milljóna króna, lauk nýverið. Fjármögnunin er í formi nýs hlutafjár frá sænska fjárfestingasjóðnum Industrifonden og jafnframt aukningar á hlutafé frá núverandi fjárfestum Meniga; Frumtaki, Kjölfestu og Velocity Capital frá Hollandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Meniga.Þar er bent á að á meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu banka heims eins og Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo.

„Þannig eru hugbúnaðarlausnir Meniga notaðar í netbönkum í um 20 löndum með rúmlega 40 milljónir virka notendur. Fjármögnuninni er ætlað að efla enn frekar sókn fyrirtækisins á erlenda markaði en auk áherslu á heimilisfjármálahugbúnað hefur Meniga meðal annars þróað neyslutengt tilboðskerfi (e. Card Linked Offers),“ segir í tilkynningunni.

„Til að byggja upp fyrirtæki eins og Meniga sem hóf starfsemi sína á Íslandi með háleit markmið um vöxt á erlendum mörkuðum er mikilvægt að geta fengið alþjóðlega fjárfesta að borðinu með sérhæfða þekkingu sem nýtist alþjóðlegum tæknifyrirtækjum samhliða stuðningi innlendra aðila. Það er því ánægjulegt að bjóða Industrifonden velkominn í sterkan hóp fjárfesta til áframhaldandi uppbyggingar og vaxtar,“ segir Benedikt Orri Einarsson, fjármálastjóri Meniga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×