Enski boltinn

Öruggt hjá Liverpool gegn grófum Everton-mönnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mané fagnar eftir að hafa komið Liverpool yfir.
Mané fagnar eftir að hafa komið Liverpool yfir. Vísir/Getty
Liverpool vann 3-1 sigur á Everton í Bítlaborgarslagnum í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Með sigrinum komst Liverpool upp í 3. sæti deildarinnar. Everton er áfram í 7. sætinu.

Sadio Mané kom Liverpool yfir strax á 8. mínútu þegar hann skoraði sitt fjórtánda deildarmark á tímabilinu.

Á 28. mínútu jafnaði Matthew Pennington metin í sínum fyrsta leik í byrjunarliði Everton.

Aðeins þremur mínútum síðar var Liverpool aftur komið yfir. Philippe Coutinho skoraði þá með glæsilegu skoti eftir góðan einleik. Staðan var 2-1 í hálfleik, Liverpool í vil.

Mané fór meiddur af velli á 57. mínútu. Í hans stað kom Divock Origi og hann var ekki lengi að láta að sér kveða. Um 200 sekúndum eftir að hafa komið inn á skoraði hann þriðja mark Liverpool.

Everton-menn ógnuðu þessu forskoti aldrei að neinu ráði. Lykilmenn eins og Romelu Lukaku og Ross Barkley fundu sig engan veginn en sá síðarnefndi var stálheppinn að hanga inni á vellinum. Sömu sögu var að segja af Ashley Williams en leikmenn Everton áttu nokkrar háskalegar tæklingar í leiknum.

Lokatölur 3-1, Liverpool í vil en Rauði herinn hefur ekki tapað fyrir Everton á heimavelli á þessari öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×