Handbolti

Anton: Það væri risastórt að komast í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Rúnarsson og félagar hans í karlaliði Vals eiga möguleika á því að komast í undanúrslit í Evrópukeppninni annað kvöld þegar Hlíðarendapiltar taka á móti serbneska liðinu HC Sloga Pozega.

Valsmenn eru í góðum málum eftir þriggja marka sigur, 30-27, í fyrri leiknum í Serbíu. Þeir mega því tapa með tveggja marka mun. Í boði er sæti í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu.

Guðjón Guðmundsson hitti Anton og ræddi við hann um leikinn á morgun. Innslagið birtist í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

„Þeir eiga eftir að gefa allt í þetta enda með hörkulið. Þetta var jafn leikur þarna úti þannig að við búumst við virkilega erfiðum leik,“ sagði Anton Rúnarsson í viðtalinu við Gaupa. Hvar eru Serbarnir sterkastir?

„Þeir eru stórir, líkamlega sterkir og spila sterkan varnarleik. Þeir eru líka lunknir í sókninni þannig að við þurfum eiga jafnvel betri leik heldur en úti til að stoppa þá,“ sagði Anton.

„Við höfum lent í smá erfiðleiknum eftir bikarúrslitin vegna meiðsla og menn hafa verið hafa að detta svolítið út og svoleiðis. Ég hef samt engar áhyggjur að menn séu ekki klárir á morgun,“ sagði Anton.

„Við erum búnir að fara út þrisvar eða fjórum sinnum, þetta getur okkur mikla reynslu og hjálpaði okkur rosalega mikið á bikarúrslitahelginni. Þetta eru öðruvísi lið og leikmenn. Þetta er líka mjög gott fyrir klúbbinn,“ sagði Anton en Valsmenn urðu bikarmeistarar á dögunum og það annað árið í röð.

„Það væri risastórt að komast í undanúrslitin og það hefur ekki gerst í mörg ár. Þess vegna biðla ég til áhugamanna um handbolta að mæta og styðja okkur á morgun hvort sem þú sért Valsari eða ekki. Við þurfum að fylla Valshöllina og sigra þetta lið,“ sagði Anton.

Það er hægt að hlusta á allt innslag Gaupa í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×