Enski boltinn

Mourinho sér eftir því hvernig hann kom fram við Schweinsteiger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Bastian Schweinsteiger.
Jose Mourinho og Bastian Schweinsteiger. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, talaði vel um þýska miðjumanninn Bastian Schweinsteiger á blaðamannafundi fyrir leik Manchester United og West Bromwich Albion.

Bastian Schweinsteiger yfirgaf Manchester United á dögunum og samdi við bandaríska liðið Chicago Fire. Schweinsteiger mun því spila í MLS-deildinni í sumar og hefur spilað sinn síðasta leik fyrir United.

Bastian Schweinsteiger er 32 ára gamall en hann kom til Manchester United árið 2015. Hann var aldrei inn í myndinni þegar Jose Mourinho tók við. Mourinho lét hann meðal annars æfa með varaliðinu frá fyrsta degi en leyfði Bastian síðan að snúa aftur inn í aðalliðið í október.

„Hann er í hópi með þeim leikmönnum sem ég sé eftir að hafa komið fram við með ákveðnum hætti. Ég sé eftir því hvernig ég fór með hann,“ sagði Jose Mourinho.

„Það síðasta sem ég sagði við hann áður en hann fór var: Ég kom ekki vel fram við þig á sínum tíma. Ég verð því að koma rétt fram við þig núna,“ sagði Mourinho sem leyfði Schweinsteiger að fara til Chicago Fire.

„Þegar hann var að biðja um að fá að losna þá varð ég að segja já. Ég var búinn að leyfa honum að fara einu sinni og gat ekki tekið það aftur,“ sagði Mourinho.

„Ég mun sakna hans því hann er góður gæi. Hann er mikill fagmaður og hefur góð áhrif, meira að segja mjög góð áhrif, á menn á æfingum,“ sagði Mourinho.

Jose Mourinho og Bastian Schweinsteiger.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×