Skoðun
Þórður Mar Þorsteinsson, kennari og bæjarfulltrúi Á-lista á Fljótsdalshéraði

Bréf til þín Jón Gunnarsson

Þórður Már Þorsteinsson skrifar

Það er öllum venjulegum Íslendingum ljóst að vegakerfið hér á landi er komið að þolmörkum, og vonandi er þér það ljóst líka, herra Jón. Framlag til nýframkvæmda í vegagerð er lægra hérlendis en í löndunum sem við berum okkur saman við. Reyndar var það þannig fyrir stuttu síðan að það var lægra en hafði verið í 30 ár sem hlutfall af landsframleiðslu. Svona getur þetta ekki gengið lengur, Jón minn. Ríkisstjórn þín verður að gera eitthvað í málinu. Þjóðin krefst þess.

Þú verður reyndar að fyrirgefa mér þó ég sé sljór að eðlisfari, og geti ekki skilið, þegar þið stjórnmálamenn segið okkur vera eina ríkustu þjóð heims. Svo ríka,   að á fjárlögum er ekki pening til að viðhalda grunnstoðum samfélagsins. Hvort við erum rík eða fátæk, Jón minn, það get ég því miður ekki sagt þér, ég er orðinn svo ruglaður í þessu öllu.

Hitt veit ég Jón, að hingað koma margir ferðamenn. Þeir koma með fullt af peningum til okkar. Margir fleiri fara líka um Leifsstöð. Þarna er tilvalin uppspretta eilítillar skattlagningar, t.d. með komugjöldum, sem bæði ferðamenn og heimamenn myndu glaðir borga, fyrir aðgang að landinu, til verndar ferðamannastöðum, og til uppbyggingar innviðanna svo sem tl vegaframkvæmda.

Því miður er of seint að innheimta þessi gjöld fyrir sumarið og miðað við orð þín í viðtali á  Bylgjunni nýverið,  þá eru ekki til peningar í ríkiskassanum fyrir framkvæmdunum.

Því legg ég nú til, herra Jón, að þú takir lán fyrir hönd ríkisins, upp á 10-20 milljarða eða eitthvað slíkt, svo hægt sé að einhenda sér í framkvæmdir næsta sumar. Þetta lán væri svo hægt að greiða hratt niður með skattlagningu á flugmiða eða slíku. Um það er mun meiri sátt meðal þjóðarinnar en um vegtollana þína, það get ég sagt þér, þrátt fyrir sljóleika minn. Drífðu nú í að taka þetta lán Jón minn Gunnarsson, við erum  nú þegar tilbúnir með tækin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira