Sport

„Ég er í skýjunum, þetta rokkar“

Telma Tómasson skrifar
Guðmundur var efstur eftir forkeppnina og var að vonum ánægður með það.
Guðmundur var efstur eftir forkeppnina og var að vonum ánægður með það.

Afreksknapinn Guðmundur Björgvinsson kom sér á pall í keppni í fimmgangi í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum í gærkvöldi, nældi sér í annað sætið á Sjóði frá Kirkjubæ.

Guðmundur var efstur eftir forkeppnina og var að vonum ánægður með það. „Ég er í skýjunum,“ sagði hann og var ekkert að orðlengja hlutina.

Sjö knapar fóru í A-úrslit og er alltaf mikil pressa að halda efsta sætinu. Í samanburðinum þurfti Guðmundur að hafa fyrir því að vera áfram á toppnum, fékk meðalgóðar einkunnir fyrir brokk og stökk, úrvalsgóða einkunn fyrir fet og góðar einkunnir fyrir tölt og skeið, gangtegundir sem hafa tvöfalt vægi í lokaeinkunn. Fyrir skeiðið var hann í þriðja sæti, en útfærslan á skeiðinu tókst ágætlega og náði hann að tryggja sér silfrið með því.

Fimmgangskeppni í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum var sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 sport og er meðfylgjandi myndskeið af sýningu Guðmundar Björgvinssonar í forkeppninni.

Niðurstöður A-úrslita í fimmgangi voru eftirfarandi:

1. Hulda Gústafsdóttir - Birkir frá Vatni - 7.43
2. Guðmundur Friðrik Björgvinsson - Sjóður frá Kirkjubæ - 7.21
3. Jakob Svavar Sigurðsson - Skýr frá Skálakoti - 7.10
4. Þórarinn Ragnarsson - Hildingur frá Bergi - 7.02 
5. Árni Björn Pálsson - Oddur frá Breiðholti í Flóa 7.00 
6. Daníel Jónsson - Þór frá Votumýri 2 - 6.98 
7. Teitur Árnason - Hafsteinn frá Vakurstöðum - 6.38
Fleiri fréttir

Sjá meira