Enski boltinn

Draumur rættist hjá John Arne Riise á Anfield um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Arne Riise fyrir framan stúkuna á Anfield.
John Arne Riise fyrir framan stúkuna á Anfield. Vísir/Getty
Það var fjör á Anfield í Liverpool um helgina þrátt fyrir enska úrvalsdeildin hafi verið í fríi vegna landsleikjahlés.

Liverpool nýtti tækifærið og mætti Real Madrid í góðgerðaleik á Anfield en leikmenn liðanna voru gamlar stjörnur. Liverpool vann leikinn 4-3 en uppselt var á leikinn. Allur ágóðinn fór til LFC Foundation.

Michael Owen, John Aldridge, Robbie Fowler og Steven Gerrard skoruðu mörk Liverpool-liðsins í leiknum. Owen spilaði eins og kunnugt er með báðum félögunum á sínum tíma.

Ein af gömlu stjörnunum sem mætti til Liverpool var Norðmaðurinn John Arne Riise en hann sagði í viðtali við heimasíðu Liverpool að ekkert hefði getað komið í veg fyrir að hann mætti á svæðið.

„Ef ég hefði verið með eitthvað skipulagt þá hefði ég frestað því. Þetta er mitt félag og mitt heimili,“ sagði John Arne Riise við heimasíðu Liverpool en Norðmaðurinn var mjög vinsæll leikamaður á þeim sjö árum sem hann var hjá Liverpool.

Ian Rush, sem stýrði Liverpool-liðinu, setti Norðmanninn að sjálfsögðu í byrjunarliðið sitt.

„Það var stórkostlegt að koma til baka og spila fyrir fullan völl. Þarna var draumur minn að rætast en það er langt síðan að ég fékk að upplifa það að spila fyrir fullan Anfield,“ sagði Riise. Hann spilaði með Liverpool frá 2001 til 2008 og vann meðal annars Meistaradeildina á sínum tíma. 

„Við fengum frábærar móttökur og það voru allir mjög sáttir inn í klefa eftir leikinn,“ sagði Riise sem notaði einnig tækifærið og hrósaði félaginu fyrir hvernig stækkun stúkunnar tókst.  „Hún er glæsileg,“ sagði Riise.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×