Enski boltinn

Everton-menn ætla að vinna Liverpool fyrir Seamus Coleman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Seamus Coleman.
Seamus Coleman. Vísir/Samsett/Getty og AFP
Phil Jagielka, fyrirliði Everton, talaði um meiðsli Seamus Coleman í tengslum við derby-leik Everton og Liverpool en liðin berjast um Bítlaborgina á Anfield í hádeginu á laugardaginn.

Seamus Coleman fótbrotnaði í leik á móti Wales í undankeppni HM á föstudaginn eftir mjög harða tæklingu og verður frá í að minnsta kosti sex mánuði. Þetta er mikið áfall fyrir leikmenn Everton en fyrirliðinn segir meiðslin gera hans menn enn ákveðnari í komandi leikjum.

Fyrstu tveir leikir Everton eftir að liðið missti Seamus Coleman er engir smá leikir því þremur dögum eftir Liverpool-leikinn á Anfield þá heimsækir Everton-liðið Manchester United á Old Trafford.

„Það eru tveir risaleikir framundan og ég veit að Seamus vill sjá okkur spila vel og ná góðum úrslitum í þessum leikjum,“ sagði Phil Jagielka í viðtali við EvertonTV.

„Við þurfum enga hvatningu fyrir svona leiki en það sem hefur gerst á síðustu dögunum mun gera okkur enn ákveðnari að ná í úrslit í þessum leikjum. Við munum mæta í þessa leiki og spila vel. Það væri líka gott ef við fengjum tækifæri til að hitta  Seamus fyrir leikinn,“ sagði Jagielka og það fer ekkert á milli mála að Everton-menn ætla að vinna Liverpool fyrir Seamus Coleman.

„Seamus er stór hluti af okkar liði. Hann hefur verið hér lengi og er einn af leiðtogum liðsins. Það eina sem við getum gert er að styðja við bakið á honum. Hann er frábær strákur og vonandi sjáum við hann brosandi aftur sem fyrst,“ sagði Jagielka.

Everton er eins og er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum á eftir Manchester United (5. sæti) og sex stigum á eftir erkifjendum sínum í Liverpool (4. sæti).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×