Innlent

Gætu orðið umskipti í veðrinu um og eftir helgi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Snjórinn sem féll á höfuðborgarsvæðinu verður út vikuna.
Snjórinn sem féll á höfuðborgarsvæðinu verður út vikuna. vísir/eyþór

„Þetta verður rólegheitaveður út vikuna og fram yfir helgi og vægt frost í borginni svona lengst af svo snjórinn er ekkert að fara,“ segir Haraldur Eiríksson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi um veðrið næstu daga.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það gætu orðið einhver umskipti í veðrinu um og eftir helgi en aðspurður um það segir Haraldur:

„Það er góðviðri hérna fram á helgi víða um lands en svo eftir helgina fara lægðirnar að verða heldur nærgöngulari án þess þó að það sé eitthvað alvarlegt.“

Á mánudag gæti því byrjað að rigna eða komið einhver slydda.

Veðurhorfur í dag og næstu daga eru annars þessar:

Fremur hæg austlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað, en norðan 8-13 metrar á sekúndu austanlands og lítilsháttar él. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum að næturlagi.

Á fimmtudag og föstudag:
Hæg austlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað. Norðan 8-13 metrar á sekúndu austast á landinu og lítilsháttar él. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag og sunnudag:
Austan 3-8, en 8-13 með suðurströndinni. Bjart veður norðan- og vestantil á landinu, en dálítil él á Suðausturlandi og Austfjörðum. Frostlaust að deginum við S- og A-ströndina, annars frost að 8 stigum, mest í innsveitum fyrir norðan.

Á mánudag:
Austan 5-13, en suðlægari seinnipartinn. Rigning S- og A-lands, en annars þurrt að kalla. Hiti 0 til 5 stig að deginum.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með slyddu og síðar rigningu, en úrkomulítið fyrir norðan. Hlýnandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira