Tónlist

Gyða með útgáfutónleika í Dómkirkjunni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gyða Valtýsdóttir gaf nýlega út plötuna Epicycle sem meðal annars fékk Kraumsverðlaun 2016 og var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í opnum flokki. Gyða heldur útgáfutónleika í Dómkirkjunni þann 3. mars 2017 kl. 21:00.

Epicycle er einstök þyrping verka sem spanna rúm tvöþúsund ár í sögu tónlistar. Hljómplatan inniheldur meðal annars útsetningu á elsta lagi sem fundist hefur í heild sinni í grafreit í Tyrklandi, grískar stúdíur sérvitringsins Harry Partch, himnu eftir galdranunnuna Hildegard Von Bingen, Tónlist Guðs úr Svörtum englum George Crumb, Óð til eilífðarinnar eftir dulspekinginn Olivier Messiaen, ástarljóð Schumanns og einn af síðustu ópusum Schuberts, op. 100.

Eftirfarandi listamenn koma að plötunni: Gyða Valtýsdóttir - selló & söngur. Shahzad Ismaily – gítar Julian Sartorius – trommur Júlía Morgensen - kristalglös  Frank Aarnink - kristalglös, slagverk o.fl Óli Björn Ólafsson - kristalglös, slagverk Kristín Anna og Ásthildur Valtýsdætur - söngur

Gyða Valtýsdóttir hóf tónlistarferilinn á táningsaldri með hljómsveitinni Múm. Hún yfirgaf sveitina til að einbeita sér að klassísku tónlistarnámi og lærði meðal annars í Rimsky-Korsakov Conservatory í St. Pétursborg og Hochschule für Music í Basel, þar sem hún lauk meistaranámi í sellóleik hjá Thomas Demenga og frjálsum spuna hjá Walter Fähndrich.

Auk þess að koma fram með sína eigin tónlist, hefur hún samið tónlist fyrir kvikmyndir og dansverk og leikur reglulega með múm, Shahzad Ismaily, Josephine Foster, Julian Sartorius, Colin Stetson og og hefur unnið með fjölda annarra listamanna í gegnum árin, m.a. A Winged Victory for the Sullen, Efterklang, Dustin O'Halloran, Damien Rice, Ben Frost, Hilmari Jenssyni, Guy Maddin, Ólöfu Arnalds, Skúla Sverrissyni o.fl.

Hér má hlusta á tónlist eftir Gyðu og hér að neðan má horfa á myndband þar sem hennar tónlist heyrist undir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×