Fastir pennar
Bergur Ebbi er á Twitter sem @bergurebbi.

Ananaskismi

Bergur Ebbi skrifar

„Af hverju vill forseti Íslands banna ananas?“ var spurning sem kanadískur félagi minn spurði mig um á dögunum.

Samskipti okkar fóru fram á netinu þannig að ég sá ekki framan í hann þegar hann spurði. Ég tel líklegt að hann hafi skilið fáránleika málsins en ég get ekki verið alveg viss.

Með spurningunni fylgdi hlekkur á frétt á ensku um ummæli Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands, um að hann myndi vilja banna ananas sem pizza-álegg – sem allir Íslendingar vita að var hreint grín.

En hvers vegna tel ég þá einhverjar líkur á því að kanadískur vinur minn skilji ekki augljósan fáránleikann? Kannski vegna þess að hann las ekki greinina heldur bara fyrirsögnina.

Kannski vegna þess að um málið var fjallað með nokkur ítarlegum greinum í The Guardian, CNN, New York Times, Fox News, kanadíska ríkisútvarpinu CBC, Huffington Post, Time, The Washington Post, Foreign Policy, Buzzfeed, Toronto Star, Boston Globe og Evening Standard, bara til að nefna nokkra heimsfjölmiðla, en í fyrirsögn síðastnefnda miðilsins kemur reyndar fram að um spaug sé að ræða.

Hinir fjölmiðlarnir eru í hefðbundnum smelludólga-hugleiðingum. Og eflaust fengu þeir marga smelli því ananas-málið er skemmtilegt, en það er samt ekki ástæða þess að ég rita um það nú, meira en viku síðar.

Hinn stjórnlausi ananas
Ég vil fremur vekja athygli á því að furðufréttir eins og ananas-málið eru hluti af miklu stærra málefni, sem varðar okkur öll, og hefur reynst fjölmiðlum mjög erfitt að koma orðum að. Það er málefni sem snýr að miðlun sannleika í heimi þar sem boðleiðir upplýsinga eru breyttar frá því sem áður var. Er eitthvað sameiginlegt með furðufréttum af „ananas-banni“ Guðna Th. Jóhannessonar og falsfréttum um hryðjuverk sem enginn kannast við? Já. Á þessum málum er sameiginlegur flötur, þó að aðkoma og ásetningur sé ekki sá sami.

Daglega fáum við fréttir af ýmsum málefnum, og líklega eiga flest eitthvað erindi. En flokkun þeirra er mjög misjöfn eftir því hvaða miðill á í hlut. Sumir fjölmiðlar setja alltaf nýjustu fréttina efst, aðrir flokka þær eftir meintu mikilvægi fyrir lesandann, aðrir gera greinarmun á fréttum eftir því hvaðan í veröldinni þær berast og margir fjölmiðlar reyna að gera einhverskonar greinarmun á „dægurmálefnum“ og „alvöru“ fréttum.

Þannig eru fjölmiðlar meðvitaðir um að frétt um rútuslys þar sem tugir látast hefur meira vægi heldur en frétt um hvað Eurovision-keppandi borðar í hádegismat. En það merkilega er, að jafnvel þessar sundurliðanir verða að engu þegar fréttirnar berast inn í vitund okkar því þar hafa fréttirnar hrærst saman við tilkynningar um að einhver hafi tékkað sig inn á matsölustaðinn Dirty Burger & Ribs eða sé nýlokinn við að hlaupa 12,6 kílómetra með aðstoð RunKeeper.

Hér geri ég ráð fyrir að fólk fái fréttir mikið í gegnum samfélagsmiðla, sem virðist vera raunin – en jafnvel þó að fólk hlusti aðeins á hefðbundnar útvarpsfréttir þá breytir það ekki endilega svo miklu. Þar flýtur ananas-málið inn í vitundina á milli frétta um banaslys í umferðinni.

Merkingin er sjálf miðlunin
En hefur þetta ekki alltaf verið þannig? Nei. Því frétt eins og „ananas-málið“ er beinlínis tilkomin vegna þess hvernig við innbyrðum fréttir. Í grunninn er ananas-málið engin frétt. Það er miklu fremur einskonar stúdía um hvernig hægt er að gera eitthvað úr engu, og að lokum verður það fréttnæmt í sjálfu sér hvernig tveir plús tveir verða fimm því að enginn getur neitað að það er áhugavert hvernig spjall forseta Íslands við nemendur Menntaskólans á Akureyri um pizza­álegg verður til þess að virtur fjölmiðill eins og Foreign Policy (sem upphaflega var stofnað til að veita krítíska sýn á utanríkisstefnu Bandaríkjanna á tímum Víetnam-stríðsins) skrifar grein um það.

Í tilfelli þessa pistils þá er það einmitt það ferli sem er til umfjöllunar, en ekki ummælin sjálf, eða eins og Marshall McLuhan benti á fyrir meira en hálfri öld (þegar hann útskýrði hvernig ný tegund fjölmiðlunar væri að breyta heiminum) að það væri sjálf miðlunin sem innihéldi merkinguna.

En hvernig get ég sagt að ananas-fréttin og lygar Donalds Trump um að Svíþjóð sé ofsótt af hryðjuverkamönnum, tengist? Vegna þess að hér eru sömu kraftar að verki. Trump er löngu búinn að ganga á lagið með þá aðferðafræði að ef eitthvað er ekki frétt, þá verður umræðan um að það sé ekki frétt eða fáránleiki þess að halda því fram að það sé frétt eða staðreynd, að frétt út af fyrir sig. Og það er býsna erfitt að komast fyrir þetta. Munurinn er sem betur fer sá að Guðni Th. er ekki vísvitandi að nýta sér þetta í áróðursskyni og að sjá hann leika óvart á þetta hljóðfæri virkar fremur eins og ágætis vitundarvakning um hversu létt er að búa til narratív sem kemst í heimsfréttirnar.

Flokka fréttir alveg upp á nýtt
Stærra samhengið snýst um hvernig upplýsingar berast. Þær berast óhindrað og á jafningjagrunni manna á milli. Það er ekki til siðs að predika. Það er ekki til siðs að segja að eitthvað sé lygi og annað sannleikur.

Furðufréttir (og líka falsfréttir) eru fórnarkostnaður afstæðishyggjunnar, og það er allt í lagi að viðurkenna það. Auðvitað eru flestir fjölmiðlar að gera sitt allra besta við að meta sannleiksgildi frétta, en slíkt mat verður bara að sér-frétt sem stækkar málið enn frekar.

Það verður ekki komist fyrir þetta nema fréttir verði flokkaðar alveg upp á nýtt og form og efni verði aðskilið. ­Þannig myndu fjölmiðlar hætta að flokka fréttir eftir því hvort þær væru „alvöru“ eða „dægurmál“ heldur frekar eftir því hversu mikil miðlun hefði skapað þær. Bæði ananas-frétt Guðna og fréttir af hryðjuverkum í Svíþjóð væru dæmi um eitthvað sem hefði mjög háan miðlunar-stuðul, það eru í raun fréttir sem fjalla bara um að einhver segir eitthvað sem aðrir segja eitthvað annað um. Grunn-atburðurinn er smár, en miðlunin sjálf býr til alla söguna. Og í slíku umhverfi er ekki skrítið þó enginn viti hvað sé grín, hvað sé alvara, hvað sé sannleikur og hvað sé lygi. Það er ástand ananaskismans.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.