Innlent

„Sorgleg málefnaþurrð hjá þingmönnum ríkisstjórnarflokksins“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. vísir/stefán
„Það er sannarlega sorgleg málefnaþurrð hjá þingmönnum ríkisstjórnarflokksins Sjálfstæðisflokksins að flytja hér mál um aukið aðgengi á áfengi,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í fyrstu umræðu um áfengisfrumvarpið á Alþingi í dag.

Frumvarpið felur í sér að sala áfengis verði heimil í verslunum og að áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, verði lögð niður. Um er að ræða afar umdeilt frumvarp en það er lagt fram af Teiti Birni Einarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, og átta öðrum þingmönnum úr samtals fjórum flokkum.

„Það er sannarlega sorgleg málefnaþurrð hjá háttvirtum þingmanni Teiti Birni Einarssyni að draga í efa mörg hundruð rannsóknir um aðgengi á áfengi, meðal annars á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem ber nánast allar að sama brunni að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu,“ sagði Rósa Björk.

Fleiri þingmenn lýstu sig andvíga frumvarpinu, og var Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, þar á meðal. Sagði hann frumvarpið fela í sér stóraukið aðgengi að áfengi og því geti hann ekki stutt það líkt og staðan er nú.

Níu þingmenn úr fjórum flokkum leggja frumvarpið fram og er þingstyrkur flokkanna fjögurra samtals 42 þingmenn. Það eru tíu fleiri en þyrfti til þess ða ná frumvarpinu í gegn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×