Innlent

Stór fasteignafélög bítast um Kirkjuhúsið á Laugavegi 31

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fasteignasali lýsir húsinu sem gulleign í miðbænum.
Fasteignasali lýsir húsinu sem gulleign í miðbænum. vísir/ernir

„Það komu fram ýmsar pælingar um hvað hugsanlegt væri að fá fyrir eignina og við getum sagt að tilboðin séu á því róli,“ segir Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, um tilboð í Laugaveg 31 sem hýsir Kirkjuhúsið.

Oddur gefur ekki upp hversu mörg tilboð bárust en segir þau vera þó nokkur, öll frá innlendum aðilum. Þau voru rædd á fundi Kirkjuráðs á þriðjudag og þar var lagt fram mat á verðmæti hússins.

„Áhuginn var mjög mikill en þetta er ekki ódýrt hús, það er vitað, og það eru ekki neitt voðalega margir sem ráða við svona fjárfestingu,“ segir Oddur.

Ekki er að sögn Odds hægt að sjá af tilboðunum undir hvaða starfsemi menn hyggist nota húsið. „Ekki að öðru leyti en því að nokkur af stóru fasteignafélögunum voru meðal bjóðenda, við getum ekki sagt hver, og við vitum að þau eru langtímafjárfestar sem eru í því að kaupa eignir og leigja út.“

Kirkjuráð fól Oddi að svara tilboðunum. „Við erum að láta meta tilboðin og undirbúa viðræður við tilboðsgjafa. Þetta fyrirkomulag er þannig að við getum í sjálfu sér tekið hvaða tilboði sem er, hafnað öllum eða tekið upp viðræður við tiltekinn eða tiltekna tilboðsgjafa,“ segir hann.

Varðandi framhaldið segir Oddur tímarammann þröngan. „Við höfum ekki langan tíma, þetta er bara vika eða tvær kannski. En þetta fer eftir því hvernig tilboðsgjafarnir taka tilboði okkar um viðræður,“ segir hann. Vel sé hugsanlegt að ræða við fleiri en einn aðila.

Fréttin birtist fyrst í FréttablaðinuAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira