Innlent

Lögregla sendir fulltrúa aftur að Hvaleyrarvatni til að bregðast við háværum orðrómi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fréttastofu hafa borist endurteknar ábendingar um tíðindi af svæðinu í kvöld sem virðast ekki eiga við nein rök að styðjast.
Fréttastofu hafa borist endurteknar ábendingar um tíðindi af svæðinu í kvöld sem virðast ekki eiga við nein rök að styðjast. Vísir/GVA
Fámennt lið lögreglu hefur verið sent að Hvaleyrarvatni í Hafnarfirði vegna grassandi orðróms á samfélagsmiðlum. Fréttastofu hafa borist endurteknar ábendingar um tíðindi af svæðinu í kvöld sem virðast ekki eiga við rök að styðjast.

Eitthvað af fólki mun hafa verið á göngu við Hvaleyrarvatn í kvöld en þar hefur engin skipulögð leit farið fram. Ekkert símtal hefur borist Neyðarlínunni frá svæðinu í kvöld sem lögregla hefur séð ástæðu til að bregðast við.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins, segir við fréttastofu að lögregla hafi fyrr í kvöld sent fulltrúa á svæðið vegna fyrrnefnds orðróms. Ekkert hafi komið út úr því.

Töluverð bílaumferð hefur verið í kringum Hvaleyrarvatn í kvöld og virðist stöðugt aukast. Ekkert fer fyrir lögreglu á svæðinu.

Uppfært klukkan 01:15

Fulltrúar lögreglu eru komnir og farnir frá Hvaleyrarvatni. Ekkert var til í fyrrnefndum orðrómi.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði í viðtali í 19:10 í kvöld að samfélagsmiðlar skiptu miklu máli við leitina að Birnu. Þó minnti hún á mikilvægi þess að aðgát sé höfð í nærveru sálar varðandi rannsókn málsins.

Aðstandendur Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur spurst að síðan snemma morguns laugardag, deildu innslaginu að neðan í hópnum Leit að Birnu Brjánsdóttur í kvöld og minntu á orð Sigríðar Bjarkar um aðgát í nærveru sálar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×