Erlent

Stytta af Neptúnus of kynferðisleg fyrir Facebook

Samúel Karl Ólason skrifar
Neptúnus á Piazza del Nettuno í Bologna.
Neptúnus á Piazza del Nettuno í Bologna. Vísir/GEtty
Stytta af hinum nakta rómverska guði Neptúnus þykir of kynferðisleg fyrir Facebook og var mynd af styttunni fjarlægð af samfélagsmiðlinum á dögunum. Styttan, sem er frá sextándu öld er staðsett í miðbæ Bolognaog sýnir nakinn Neptúnus umkringdan nöktum börnum en ítölsk kona var beðin um að fjarlægja myndina af Facebook síðu sinni.

Styttan var smíðuð á sjöunda áratug sextándu aldar af listamanninum Jean de Boulogne og hefur verið á torginu í nærri því fimm hundruð ár.

Samfélagsmiðillinn varð fyrir mikilli gagnrýni eftir að umsjónarmaður síðunnar sem myndin var fjarlægð af, Elisa Barbari, mótmælti ákvörðuninni. Facebook hefur nú gefið út að bannið hafi verið mistök.

Barbari ætlaði að nota myndina til að auglýsa síðu sína um Bologna þegar myndin og þar með auglýsingin var fjarlægð.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að ritstýringarhugbúnaður Facebook veldur usla, en í fyrra var hin margverðlaunaða ljósmynd Terror of War, sem er af nakinni stúlku flýja undan Napalm árás í Víetnam stríðinu, fjarlægð af Facebook vegna nektar stúlkunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×