Handbolti

Spánverjarnir keyrðu yfir Pólverja í seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sarmiento skorar fyrir spænska landsliðið í kvöld.
Daniel Sarmiento skorar fyrir spænska landsliðið í kvöld. Vísir/EPA
Spænska handboltalandsliðið er í riðli með Íslandi á HM í Frakklandi og spænska landsliðið lítur vel út ef marka má æfingaleik á móti Póllandi í Irún í kvöld.

Pólverjarnir voru reyndar í fínum málum í fyrri hálfleiknum og einu marki yfir, 12-11, í upphafi þess síðari. Þá fór spænska liðið í gang og hreinlega keyrði yfir Pólverjana í seinni hálfleiknum.

Spánverjarnir unnu síðustu 28 mínútur leiksins 19-8 og þar með leikinn með tíu mörkum, 30-20.

Jordi Ribera, þjálfari spænska liðsins, hefur aðeins hrist upp í sínum mönnum í hálfleiknum og þegar Spánverjarnir komust í gang þá var lítið um svör hjá lærisveinum  Talant Duyshebaev í pólska landsliðinu.

Pólverjar eru í A-riðli á HM og gæti orðið mótherjar íslenska liðsins í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins komist íslenska liðið upp úr B-riðlinum.

Gurutz Aginagalde, 39 ára markvörður spænska liðsins, setti nýtt met í kvöld en hann varð þá elsti leikmaðurinn til að spila sinn fyrsta A-landsleik fyrir Spán.

Ísland mætir Spáni í fyrsta leik sínum á HM eftir tæpa viku. Það verður afar erfitt verkefni fyrir strákana okkar ef marka má leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×