Handbolti

Staffan Olsson: Lars er fyrirmyndin mín

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty/vilhelm stokstad
Staffan Olsson verður í nýju hlutverki á HM í handbolta sem fer fram í Frakklandi í næsta mánuði.

Olsson hætti sem þjálfari sænska landsliðsins eftir Ólympíuleikana í Ríó þar sem Svíar ollu miklum vonbrigðum og komust ekki upp úr sínum riðli.

Við starfi hans og Ola Lindgren, sem þjálfaði sænska liðið í samvinnu við Olsson, tók Kristján Andrésson sem er á leið á sitt fyrsta stórmót með Svía.

Í stað þess að vera á hliðarlínunni verður Olsson sérfræðingur í sjónvarpi ásamt Ljubomir Vranjes, fyrrverandi landsliðsmanni og núverandi þjálfara Flensburg.

Í samtali við Aftonbladet segir Olsson að það verði ekki erfitt fyrir hann að fara í hlutverk sérfræðingsins og fjalla með gagnrýnum hætti um leikmenn sem hann þjálfaði í mörg ár.

„Í fyrstu var ég efins en þú verður að vera tilbúinn að prófa nýja hluti. Ég er ekki feiminn að stökkva út í djúpu laugina,“ sagði Olsson.

„Ég get séð hlutina út frá tveimur hliðum. Ég segi frá því sem ég sé og gæti verið gagnrýninn á köflum. Það er ekki vandamál að mínu mati. Ég hef áður gagnrýnt þessa leikmenn á bak við tjöldin.“

Olsson segir að fyrirmyndin hans í þessum efnum sé Lars Lagerbäck, fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.

„Hann er hann sjálfur og er ekkert að flækja hlutina að óþörfu. Hann drullar ekki yfir fólk hægri vinstri heldur getur hann verið jákvæður, jafnvel þegar hann er gagnrýninn. Hann er rólegur og yfirvegaður þegar hann tjáir sig.“ sagði Olsson um Lagerbäck.

Svíar eru í riðli með Katar, Danmörku, Egyptalandi, Bahrein og Argentínu á HM í Frakklandi sem hefst 11. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×