Innlent

Risaáfangi í djúpborun á Reykjanesi

Svavar Hávarðsson skrifar
Tekist hefur að bora niður á 4.500 metra dýpi á háhitasvæði HS Orku á Reykjanesi. Er dýpsta hola þessarar gerðar á Íslandi – og líklega í heiminum. Vonast er til að úr verði vinnsluhola með margfalda vinnslugetu venjulegrar borholu.
Tekist hefur að bora niður á 4.500 metra dýpi á háhitasvæði HS Orku á Reykjanesi. Er dýpsta hola þessarar gerðar á Íslandi – og líklega í heiminum. Vonast er til að úr verði vinnsluhola með margfalda vinnslugetu venjulegrar borholu. Grunnmynd/Ísor
Afar mikilvægum áfanga var náð í íslenska djúpborunarverkefninu (IDDP) á dögunum þegar tókst að bora niður á 4.500 metra dýpi á Reykjanesi – en markmiðið er að bora niður á allt að fimm kílómetra. Holan, sem er á vinnslusvæði Reykjanesvirkjunar, hefur þegar þá sérstöðu að vera langdýpsta hola sem boruð hefur verið á háhitasvæði hér á landi og líklega í heiminum.

Margt getur farið úrskeiðis

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, vill ekki ganga svo langt að segja að nú hilli undir að fimm kílómetra markinu verði náð, einfaldlega vegna þess að þegar borað hefur verið niður á svo mikið dýpi sem raun ber vitni geti margt farið úrskeiðis með litlum fyrirvara.

„Við getum ekkert fullyrt um það. En væntingar aukast vissulega þegar áfanga sem þessum er náð. Allt getur þetta tekið snöggan endi, vegna þess að einhverra hluta vegna er ekki hægt að bora dýpra. Í fyrri tilraunum hefur nákvæmlega þetta gerst,“ segir Ásgeir og vísar til djúpborunarholu sem var boruð á jarðhitasvæðinu við Kröflu árin 2008 og 2009. Það var fyrsta holan í djúpborunarverkefninu (IDDP-1).

Spurður nánar um þann áfanga sem nú hefur náðst segir Ásgeir að fyrsti áfanginn hafi verið að komast niður á þrjá kílómetra og takast að fóðra holuna, næsti áfangi var að komast niður á 3.500 metra og hefja hina eiginlegu djúpborun. Síðan hafi verið mikill sigur að komast niður á fjóra kílómetra og enn meiri að komast nú niður á 4.500 metra – sérstaklega þegar við bætist að tekist hafi að ná borkjörnum upp á yfirborðið sem eru bergsýni sem gefa mikilvægar upplýsingar. Náðst hefur upp sýni af 4.300 metra dýpi og aldrei fyrr hefur náðst sýni úr slíku dýpi.

Ásgeir Margeirsson
Engin hola dýpri

„Það skýrist af því að þetta er líklega dýpsta borhola sem boruð hefur verið við þessar aðstæður, svo segja má að það hafi verið margir áfangar, og sumir þeirra eru met, í þessari framkvæmd. Þar er því að þakka að undirbúningur verksins var afar vandaður, tel ég mig geta fullyrt. 

Allar forsendur við borunina hafa verið hugsaðar upp á nýtt miðað við hefðbundna borun og lagður mikill metnaður í að fá besta mannskap, búnað, aðferðir og efni. Þetta er allt gert á grunni nýrrar hugsunar og dreginn er lærdómur af mikilli reynslu í háhitaborun á Íslandi og djúpborunarverkefninu við Kröflu á sínum tíma,“ segir Ásgeir, sem bætir við að áætlaður kostnaður við verkefnið nálgist tvo milljarða króna. Til samanburðar má geta þess að hefðbundin vinnsluhola á háhitasvæði á Íslandi kostar 500 til 700 milljónir króna. Við þetta bætist kostnaður við að bora holuna niður á 2.500 metra dýpi á sínum tíma, en þetta verkefni hófst með dýpkun þeirrar holu frá 2.500 metrum.

Um er að ræða samstarfsverkefni um djúpborun sem leitt er af HS Orku og unnið í samstarfi við norska olíufélagið Statoil og önnur fyrirtæki innan íslenska djúpborunarverkefnisins (IDDP). Íslenska djúpborunarverkefnið var stofnað árið 2000 og voru stofnendur þess HS Orka, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Orkustofnun. Jarðboranir sinna boruninni og nýta sitt öflugasta tæki, Þór, sem er knúinn raforku sem framleidd er í orkuverum HS Orku skammt frá borstaðnum. Við þennan öfluga hóp bætast verkfræðiráðgjafar, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og háskólar og vísindasamfélagið – en fengist hafa erlendir styrkir til verksins, til dæmis Evrópusambandsstyrkur til rannsókna. Kostnaðinn axla því margir aðilar – hérlendis sem erlendis.

Umhverfisvænt

Tilgangur djúpborunarverkefnisins er að kanna hvort framleiða megi orku úr djúplægum jarðhitakerfum sem gæti aukið orkuframleiðslu háhitasvæða umtalsvert og þar með dregið úr umhverfisáhrifum og landrýmisþörf orkuvinnslunnar og vonandi lækkað kostnað við orkuvinnsluna.

„Þegar höfum við lært gríðarlega mikið. Hvað svo sem verður um holuna þá er mikil vitneskja þegar í hendi, þó svo fari að við getum ekki notað holuna. Mögulegt er að hún nýtist til niðurdælingar, það er að segja að dæla vökva niður fyrir kerfið sem við erum að vinna orkuna úr. Svo er besti kosturinn að úr verði öflug vinnsluhola sem er markmiðið. 

Öflug vinnsluhola sem gæti leitt af sér þá þróun í jarðhitaheiminum, hér og annars staðar í heiminum, að það verði mögulegt að bora dýpri, öflugri holur sem gera það mögulegt að ná tilteknu magni af orku með færri borholum. Þar með þurfum við að snerta minna af yfirborði lands og umhverfisáhrif verða minni – sem er afar mikilvægt í dag. Eins væri hægt að minnka kostnað við að ná orkunni,“ segir Ásgeir en um þróunarverkefni er að ræða og margt eftir að gerast í framhaldinu.

Vinnslutækni djúprar borholu ræðst af því hvernig jarðhitavökvi finnst á fjögurra til fimm kílómetra dýpi. Reynist efnasamsetningin viðráðanleg og unnt verður að vinna yfirhitaða orkuríka gufu beint upp úr djúpu borholunni er það fyrsti valkostur sem mun þar með auka orkuvinnslu á Reykjanesi. Markmiðið er að bora niður á allt að fimm kílómetra dýpi, eins og áður sagði, þar sem búast má við hitastigi sem nemur 400 til 500 gráðum.

Ásgeir segir vísbendingar um að bergið niðri á 4.500 metra dýpi sé orðið verulega heitt; það sé hins vegar ekki vitað nákvæmlega þar sem nauðsynlegt er að halda holunni kaldri á meðan á borun stendur.

„Þetta hefur ekki verið mælt, en við höfum vísbendingar um að hitastigið sé komið yfir 400 gráður,“ segir Ásgeir.

Árangur þegar mikill

Hvort náist hið fyrirfram setta markmið að bora niður á fimm kílómetra dýpi, segir Ásgeir það ekki skipta öllu máli – framhaldið verði það sama hvort sem borholan verður 4.500 metrar eða fimm kílómetrar þegar borun lýkur. Þá hefjist frágangur á holunni og síðan ýmsar mælingar og vísindarannsóknir – láta þarf holuna hitna upp til að sjá hvernig hún bregst við miklum hita. Þegar sé til staðar áætlun fyrir þennan fasa verkefnisins sem spannar allt að því tvö ár.

„Kannski ári eftir að borun er lokið er komið gott mat á árangurinn – hvernig holan hagar sér og hvernig er raunhæft að nýta hana til framtíðar litið,“ segir Ásgeir en álitið er að ef hola sem þessi nýtist til vinnslu sé hægt að margfalda orkuvinnslugetu miðað við hefðbundna borholu á jarðhitasvæði. Venjuleg vinnsluhola sem nú er nýtt á Íslandi gefur kannski um fimm megavött en ekki er talið útilokað að djúpborun geti skilað holu sem skilar 30 til 50 megavöttum. Allt slíkt tal er þó byggt á áætlunum og enn ósannað.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×