Lífið

Dave Chappelle og Netflix í eina sæng

Anton Egilsson skrifar
Dave Chappelle snýr aftur á skjáinn.
Dave Chappelle snýr aftur á skjáinn. Vísir/GETTY
Aðdáendur Dave Chappelle geta nú beðið spenntur en bandaríska streymiþjónustan Netflix hefur nú tilkynnt um endurkomu uppistandarans á sjónvarpsskjáinn. Greint er frá því á Variety að sérstakir uppistandsþættir með Chappelle, sem verða þrír talsins, muni líta dagsins ljós á Netflix á næsta ári en endanleg dagsetning liggur ekki fyrir. 

Chappelle sem er 43 ára sló fyrst í gegn í byrjun tíunda áratugarins og lék hann til að mynda í kvikmyndum á borð við The Nutty Professor, Con Air, Half Baked og Undercover Brother. Hann er þekktastur fyrir grínþætti sína Chappelle's Show sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni Comedy Central.

Lokaþáttur Chappelle’s Show fór í loftið árið 2006 en Chappelle hafnaði samningi sem hljóðaði upp á 55 milljónir Bandaríkjadali eða því sem samsvarar rúmlega sjö milljarða íslenskra króna fyrir að halda áfram með þáttinn. Hann ákvað þess í stað að flytjast búferlum til Suður Afríku og hefur lítið sem ekkert verið í sviðsjósinu síðan þá. 

Netflix hafa að undanförnu lagt mikið kapp á að hasla sér völl á sviði uppistands en fyrir skömmu gerðu þeir samning við Chris Rock um gerð uppistandsþátta sem hljóðaði upp á hvorki meira né minna en 40 milljónir dollara. Með nýlönduðum samningi við Chappelle hefur Netflix því styrkt stöðu sína enn frekar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×