Formúla 1

Horner: Hamilton ætti að beita brögðum í keppninni

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilton og Christian Horner ræða málin.
Lewis Hamilton og Christian Horner ræða málin. Vísir/Getty
Liðsstjóri Red Bull liðsins, Christian Horner telur að það væri „snjallt“ af Hamilton að reyna að hafa áhrif á framgang Nico Rosberg í keppninni í Abú Dabí um helgina.

Red Bull verður líklega helsti keppninautur Mercedes um helgina. Stærðfræðilega þarf Hamilton á bílum á milli hans og Rosberg að halda til að verða heimsmeistari. Það myndi því henta Hamilton vel ef Red Bull liðið myndi fylla annað og þriðja sætið á verðlaunapallinum í Abú Dabí.

„Ég mun segja ökumönnum mínum að láta vaða. Þetta er ekki þeirra einvígi um titilinn,“ sagði Horner.

„Við gætum orðið bestur vinir Lewis á sunnudag ef okkur tekst að koma báðum bílum fram fyrir Nico,“ bætti Horner við.

„Hamilton græðir ekkert á því að vera hálfum hring á undan öllum öðrum - ef hann er snjall þá þéttir hann hópinn svo keppnin sé hörð fyrir aftan hann, eina leiðin fyrir hann til að reyna að verða heimsmeistari er að beita brögðum,“ hélt Horner áfram.

Hvernig sem Hamilton mun spila úr þessu á sunnudag eða hvort keppnin verður eitthvað í hans höndum yfirhöfuð á enn eftir að koma í ljós. Það gæti vel farið svo að Rosberg verði með forystu í keppninni og Hamilton þurfi að elta hann uppi til að eiga möguleika. Það mun allt koma í ljós um helgina.

Lokakeppni tímabilsins fer fram um komandi helgi. Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 12:50 á laugardag á Stöð 2 Sport 3. Bein útsending frá keppninni hefst svo klukkan 12:30 á sunnudag á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×