Skoðun

Tónlistarkennarar – Engir annars flokks kennarar

Gunnar Guðbjörnsson skrifar
Verðleikamat á menntun virðist vefjast fyrir stjórnvöldum. Af stefnuskrám stjórnmálaflokka í kosningabaráttunni nú í haust mátti þó draga þá ályktun að menntun væri sumum flokkum verulega mikilvæg. Ef sú væri raunin ætti það að endurspeglast í stefnu þessara sömu flokka í sveitarstjórnum. Svo er hins vegar ekki.

Tveimur kjarasamningum grunnskólakennara hefur verið hafnað og er enn óvíst hvenær samningar nást sem þeir sætta sig við. En það sitja ekki allir við sama borð því að sumum kennurum er ekki einu sinni gert óásættanlegt tilboð: Tónlistarkennurum.

Fyrir hrun nutu grunnskólakennarar og tónlistarkennarar sömu launa fyrir sömu vinnu. Eftir að landið lagðist á hliðina árið 2008 tóku þeir síðarnefndu hins vegar á sig stórfellda launaskerðingu. Enn hefur sú skerðing ekki verið leiðrétt. Samband íslenskra sveitarfélaga virðist aðeins reiðubúið að bjóða tónlistarkennurum í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum samning sem er í takt við launakjör samkvæmt launasamningi sambandsins við Félag íslenskra hljómlistarmanna frá því í fyrra. Sá samningur felur í sér 15% lægri laun en samningurinn sem grunnskólakennarar hafa tvisvar hafnað. Þannig hyggst SÍS viðhalda launamisréttinu sem myndaðist í hruninu og skapa viðvarandi stéttaskiptingu meðal kennara. Svo litla virðingu bera sveitarstjórnir fyrir okkar störfum.

Enginn þarf að efast um mikilvægi menningar í okkar litla landi. Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman og er menning okkur nauðsynleg til að lifa af hér á norðurhjara. Að auki hefur hún reynst magnað segulstál á þær milljónir ferðamanna sem heimsótt hafa Ísland síðustu ár en enginn efast um hlut þeirra í að rétta af efnahag landsins eftir hrun. Hún hefur einnig átt drjúgan þátt í að reisa við orðspor okkar Íslendinga á erlendri grund. Listkennsla er lykillinn að því að menning okkar blómstri og þar gegnir tónlistarkennslan risavöxnu hlutverki. Íslensk tónlist hefur fangað athygli heimsbyggðarinnar ekki síður en bókmenntirnar. Menning er eins konar markaðssetning á landinu og sjái stjórnvöld ekki nauðsyn þess að við þá markaðssetningu sé stutt er augljóst að landið mun fyrr en síðar komast í þrot. Það er alvarlegur skortur á hyggjuviti.

Í aðdraganda fimm vikna verkfalls tónlistarkennara haustið 2014 og eftir að því lauk sat ég marga fundi með þeim stjórnmálaflokkum sem þá sátu á Alþingi. Þeir þingmenn sem ég ræddi við voru allir á einu máli um ágæti tónlistarmenntunar. Meirihluti þeirra var á þeirri skoðun að farsælast væri að ríkið tæki að sér að fjármagna kennslukostnað tónlistarskólanna. Þeir sem skáru sig úr þessum hópi voru sjálfur mennta- og menningarmálaráðherra og því miður þingmenn Sjálfstæðisflokks. Það var því varnarsigur skólanna að raunfjármagn til Jöfnunarsjóðs fengist sem leiddi af sér nokkra hækkun á greiðslum til tónlistarskóla. Fyrir skólana í Reykjavík sem glímt hafa við ófullnægjandi fjármögnun frá borginni var þetta og sameiginleg fjárveiting ríkis og sveitarfélaga til tónlistarskóla lífsbjörg og fyrir hana erum við þakklát.

Ekki ástæða til að kyssa vöndinn

Ekki teljum við tónlistarkennarar þó ástæðu til að kyssa vöndinn. Við teljum okkur sinna störfum okkar af sömu kostgæfni og gæðum og grunnskólakennarar og vitum að starf okkar skiptir máli. Við sættum okkur ekki við að vera álitnir þurfalingar eða sníkjudýr á íslensku samfélagi, hvað þá „annars flokks borgarar“ sem hægt er að bjóða lægri laun en öðrum.

Tuttugu þúsund Íslendingar starfa við skapandi greinar og eru tónlistin og tónlistarnámið verulegur hluti af því mengi. Tónlistarnemar hafa náð frábærum árangri í framhaldsnámi í hvort heldur er öðrum listgreinum eða ólíkum greinum háskólanáms svo eftir því hefur verið tekið. Margsannað og viðurkennt er að tónlistarnám eykur námsgetu barna og ungmenna í öðrum námsgreinum. Því væri skynsamlegast í okkar litla samfélagi að kappkosta að bæta árangur íslenskra barna með því að bjóða öllum aðgang að tónlistarnámi fremur en að grafa undan tónlistarkennslu með því að fæla kennara frá greininni. Við viljum að kennslustörf okkar verði fullfjármögnuð og að við verðum metnir til jafns við aðra í launum.

Afstaða fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga til tónlistarnáms er þeim til minnkunar. Lausnin gæti verið að losa þessa mikilvægu grein undan þeirri áþján sem fylgir því að glíma við þröngsýna kothugsun og færa alla fjármögnun tónlistarnáms á Íslandi undir ríkissjóð. Þá verða líka þingmenn og ráðherrar að standa undir því trausti.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×