Innlent

Rjúpnaskyttan ekki með farsíma meðferðis

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Leit þyrlu Landhelgisgæslunnar haldið áfram þegar veður leyfir.
Leit þyrlu Landhelgisgæslunnar haldið áfram þegar veður leyfir. Mynd/Landhelgisgæslan

Rjúpnaskyttan sem leitað hefur verið frá klukkan átta í gærkvöldi var ekki með farsíma meðferðis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Þyrla Landhelgisgæslunnar fór á vettvang í gærkvöldi eftir beiðni frá lögreglu um aðstoð þyrlu við leitina.

Þyrlan leitaði eins og aðstæður buðu en skyggni var slæmt og þurfti að hætta leit rétt eftir klukkan eitt í nótt. Ekki var hægt að notast við miðunarbúnað vegna farsíma þar sem maðurinn var ekki með farsíma meðferðis.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út laust fyrir klukkan átta í gærkvöldi til leitar að skyttunni. Maðurinn gekk til rjúpa frá sumarhúsabyggðinni í landi Einarsstaða á Héraði og óskað var eftir aðstoð þegar hann skilaði sér ekki til byggða fyrir myrkur.

Alls hafa um 200 björgunarsveitamenn tekið þátt í leitaraðgerðunum og eru fleiri í startholunum ef þörf krefur. Þá hefur Rauði krossinn sett upp aðstöðu í grunnskólum þar sem björgunarsveitarfólk getur hvílt sig milli leitarlota.

Þyrlan og áhöfn hennar biðu á Egilsstöðum í nótt og verður leit framhaldið með þyrlu um leið og veðuraðstæður leyfa.


Tengdar fréttir

Rjúpnaskyttu leitað á Austurlandi

Björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið kallaðar út til leitar að rjúpnaskyttu sem saknað er við Einarsstaði.

Rjúpnaskyttu leitað í alla nótt

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa í alla nótt leitað manns sem gekk í gær til rjúpna austur á Héraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×