Innlent

Kjósendur óvægnir í útstrikunum á Sigmundi

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Yfir 800 kjósendur strikuðu yfir nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Yfir 800 kjósendur strikuðu yfir nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Vísir/Stefán
Talsvert var um útstrikanir á frambjóðendum Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Sá frambjóðandi sem hlaut langflestar útstrikanir var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, oddviti flokksins í kjördæminu. Strikað var 817 sinnum yfir nafn Sigmundar.

Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, fullyrti í samtali við Vísi í gær að einn maður hafi verið áberandi meira strikaður út en aðrir og er nú ljóst að Sigmundur Davíð er frambjóðandinn sem um ræðir. Samkvæmt skýrslu yfirkjörstjórnar kjördæmisins voru útstrikanir Framsóknarflokksins, eða færsla niður um sæti, alls 945. Skýrslan birtir þó aðeins útstrikanir fulltrúa sem náðu kjöri svo vera má að útstrikanirnar hafi verið fleiri.

Flokkurinn fékk í heild 4.542 atkvæði og strikuðu því 18 prósent kjósenda Framsóknarflokksins yfir oddvitann og formanninn fyrrverandi. 

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu eða 6.014. Þeir fulltrúar flokksins sem náðu kjöri fengu samanlagt 185 útstrikanir. Kristján Þór Júlíusson, oddviti flokksins í kjördæminu, var þar efstur á blaði en hann var strikaður út 64 sinnum.

Útstrikanir höfðu ekki áhrif á röðun á lista

Útstrikanirnar virðast ekki hafa haft áhrif á röðun fulltrúa á lista. Í grein sem birtist í Fréttablaðinu í síðustu viku kemur fram að mikil samstaða þurfi að vera á meðal kjósenda til þess að hægt sé að framkalla breytingu á listum.

Nýjasta tilfelli þess að útstrikanir hafi haft áhrif á röðun frambjóðenda á lista er frá árinu 2009 þegar Guðlaugur Þór Þórðarson færðist neðar á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Flokksbróðir hans, Árni Johnsen, færðist einnig niður um lista í Suðurkjördæmi sama ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×