Íslenski boltinn

Fyrirliðinn fer frá Breiðabliki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnór Sveinn Aðalsteinsson spilar ekki með Blikum á næstu leiktíð.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson spilar ekki með Blikum á næstu leiktíð. vísir/andri marinó
Arnór Sveinn Aðalsteinsson hefur yfirgefið Pepsi-deildarlið Breiðabliks en hann og stjórn knattspyrnudeildar félagsins hafa komist að samkomulagi um að endurnýja ekki samning bakvarðarins.

Þetta kemur fram á heimasíðu Breiðabliks, en þessi þrítugi varnarmaður er uppalinn hjá Blikum og hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin misseri. Hann spilaði aðeins tíu leiki í sumar en missti sæti sitt í liðinu til hins efnilega Alfons Sampsted.

„Ég er orðinn 30 ára gamall og fannst þetta rétti tíminn til að prófa eitthvað nýtt,“ segir Arnór Sveinn sem hefur verið sterklega orðaður við KR og nýliða KA síðustu vikur.

Arnór á glæsilegan feril að baki með Blikaliðinu. Hann lék fyrst með meistaraflokki árið 2003 og á að baki 252 leiki með meistaraflokki þar af 139 í efstu deild.  

Hann er sjötti leikjahæsti Bliki í meistaraflokki frá upphafi og hefur þar að auki spilað 12 leiki með A-landsliði Íslands og 9 með U-21árs landsliðinu. Arnór spilaði sem atvinnumaður með Hönefoss í efstu deild í Noregi á árunum 2011-2013, að því fram kemur á blikar.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×