Íslenski boltinn

Arnór Sveinn: Willum stór ástæða fyrir því ég ákvað að fara í KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Sveinn leikur ekki í grænu treyjunni á næsta tímabili.
Arnór Sveinn leikur ekki í grænu treyjunni á næsta tímabili. vísir/stefán
Arnór Sveinn Aðalsteinsson var í dag kynntur sem nýr leikmaður KR. Arnór Sveinn, sem kemur frá Breiðabliki, skrifaði undir þriggja ára samning við KR.

„Þetta er hrikalega góð tilfinning. Þetta er flottur klúbbur og þeir sýndu mikinn áhuga á að fá mig. Þjálfarinn er flottur og hann lagði mikla áherslu á að fá mig. Þetta er stórveldi og ég hef áhuga á að spila fyrir það,“ sagði Arnór Sveinn í samtali við Vísi.

Arnór Sveinn hefur spilað með Breiðabliki allan sinn feril ef frá eru talin þrjú tímabil með Hönefoss í Noregi. En af hverju ákvað hann að söðla um núna?

„Samningurinn minn var að renna út og þetta er sá tímapunktur þegar þú ert að skoða þín mál. Þetta var bara út af samningstöðunni sem ég var í,“ sagði Arnór Sveinn.

Hann hlakkar mikið til að vinna með Willum Þór Þórssyni sem gerði tveggja ára samning við KR fyrr í vikunni. Arnór Sveinn og Willum þekkjast aðeins en sá síðarnefndi var aðstoðarþjálfari hjá Breiðabliki 2014.

„Það er stór ástæða þess að ég ákvað að koma hingað. Hann heillaði mig mikið sem þjálfari,“ sagði Arnór Sveinn að lokum.


Tengdar fréttir

Arnór Sveinn orðinn leikmaður KR

Bakvörðurinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson er genginn í raðir KR. Hann var kynntur til leiks í KR-heimilinu nú rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×