Innlent

Bara geðveik: Hélt hann væri að fara að giftast Rihönnu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það geta ýmsar skringilegar hugmyndir grafið um sig í kollinum á manneskju í örlyndi, Brynjar Orri Oddgeirsson, lýsir í myndbrotinu sem hér fylgir, hvernig hann var sannfærður um að honum og stórstjörnunni Rihönnu væri ætlað að eigast, þegar hann var á hápunkti maníu. Maníu sem lauk með því að hann var lagður inn á geðdeild mánuðum saman.

Brynjar Orri var fyrir nokkrum árum háskólanemi í fjármálaverkfræði en er í dag skapandi ungur maður að fóta sig í nýrri tilveru á geðlyfjum eftir að hann fór fyrst í maníu árið 2012. Brynjar er einn af fjórum hugrökkum manneskjum sem ákváðu að hleypa Lóu Pind og Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni inn í líf sitt.

Þau hafa fylgst með Brynjari, Ágústu Ísleifsdóttur, Silju Björk Björnsdóttur og Bjarneyju Vigdísi Ingimundardóttur mánuðum saman, sumum í tæplega ár til að fá djúpa innsýn í tilveru fólks með geðsjúkdóma.

Fyrsti þáttur af sex í heimildaþáttaseríunni “Bara geðveik” fer í loftið á Stöð 2 í kvöld kl. 20:40. Lóa Pind Aldísardóttir hefur umsjón með þáttunum, Egill Aðalsteinsson er myndatökumaður og Ómar Daði Kristjánsson sér um klippingu.

Í fyrsta þætti kynnumst við Brynjari Orra sem er greindur með geðhvörf og Silju Björk Björnsdóttur sem hefur glímt við þunglyndi og kvíða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×