Innlent

Fegin því að ganga fram yfir

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Foreldrar barna sem fæddust eftir miðnætti síðast liðna nótt geta fengið allt að 1,2 milljónum meira í fæðingarorlof en foreldrar barna sem fæddust í gær. Verðandi móðir sem komin er fram yfir áætlaðan fæðingardag segist ekki hafa trúað því að nokkur yrði ánægður með að fæðingin drægist á langinn.

Ríkisstjórnin ákvað í síðustu viku að fæðingarorlofsgreiðslur yrðu hækkaðar í 500 þúsund krónur fyrir fjölskyldur barna sem fæðast eða eru ættleidd eftir fimmtánda október. Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hafa hingað til verið 370 þúsund krónur og því er um að ræða umtalsverða hækkun fyrir marga. Fæðingarstyrkur og lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka einnig frá og með deginum í dag.

Rúna Sigurðardóttir í dag gengin viku fram yfir með sitt fyrsta barn. 

„Ég var sett áttunda október, síðasta laugardag, og frétti af þessu á föstudeginum. Ég var auðvitað rosalega spennt að fá barnið í heiminn og var að vonast til að það myndi ganga eftir. En núna er ég gengin viku fram yfir og er núna innan marka að fá þessi réttindi. Ég er mjög ánægð en þetta eru vissulega skrítnar aðstæður sem maður er settur í.“

Rúna segist vera nokkuð fegin að hafa gengið fram yfir með barnið.

„Ég hélt að enginn yrði það. Yfirleitt er þessi síðasta vika og síðustu tvær frekar erfiðar og maður er orðinn spenntur að fá litla krílið í hendurnar. En núna í dag munar þetta heilmiklu fyrir mig og mína fjölskyldu. Svo við erum mjög ánægð.“


Tengdar fréttir

Ellilífeyrir og fæðingarorlof mun hækka

Á fundi ríkisstjórnarinnar í gær var samþykkt að leggja til breytingar á hámarksgreiðslum til foreldra í fæðingarorlofi og hækkun á lífeyrisgreiðslum til eldri borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×