Innlent

Jóhannes Þór: Úrslitin gríðarleg vonbrigði og aðdragandinn ömurlegur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jóhannes Þór Skúlason.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jóhannes Þór Skúlason. vísir/friðrik þór
Jóhannes Þór Skúlason, sem staðið hefur vaktina sem aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrrverandi formanns Framsóknarflokks, segir úrslit formannskosninga Framsóknarflokksins um liðna helgi hafa verið mikil vonbrigði. Í stuttu samtali við Vísi segist hann vera með ráðningu fram að kosningum en að öðru leyti sé allt óráðið.

„Ég er afskaplega stoltur af því að hafa fengið að taka þátt í þessum ótrúlega rússíbana síðustu ára með Sigmundi og öðrum vinum og félögum. Með þeim hef ég fengið að taka þátt í ótrúlegum afrekum sem hafa verið unnin fyrir land og þjóð. Án Sigmundar hefðu flest þeirra orðið minni og þau stærstu alls ekki orðið,“ skrifar Jóhannes Þór á Facebook-síðu sína.

Aðdragandinn ömurlegur

Jóhannes tekur jafnframt fram að aðdragandinn að formannskosningunum hafi vakið upp vondar tilfinningar, en mikil ólga hefur ríkt innan flokksins. „Úrslit sunnudagsins voru gífurleg vonbrigði. Aðdragandinn að þeim var enn ömurlegri á alls konar máta og hefur vakið upp ýmsar vondar tilfinningar sem mun taka langan tíma að vinna á.“

Spuður nánar út í aðdragandann að formannskosningunum segir Jóhannes að margt hafi verið í gangi undir yfirborðinu, en vill ekki tjá sig nánar um það að sinni.

Þá segir hann að framundan séu nýjar áskoranir, sem þrátt fyrir allt sé alltaf spennandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×