Skoðun

Fleiri femínista á þing

Guðrún Alda Harðardóttir skrifar
Úrslit í nokkrum prófkjörum undanfarinna daga sýna svo ekki verður um villst, að konur og sjónarmið kvenna, femínisk sjónarmið, eiga enn og aftur undir högg að sækja á pólitískum vettvangi. Sérstaklega er þetta áberandi í prófkjörum Sjálfstæðisflokks í Suður- og Suðvesturkjördæmum. Samt er óumdeilt að nauðsynlegt sé í nútímasamfélagi að raddir og sjónarmið kvenna jafnt sem karla heyrist sem víðast.

Við þurfum því með einhverjum hætti að tryggja að hlutfall kvenna á Alþingi haldi áfram að hækka en lækki ekki. Ein leið til þess er að styðja þá flokka sem sýna í verki að þeir treysta konum jafnt sem körlum til forystustarfa og leggja áherslu á jafnan rétt kynjanna til að móta það samfélag sem við viljum búa í.

Líklegra er að konur haldi femíniskum sjónarmiðum á lofti en karlar. Björt framtíð er flokkur sem treystir konum jafnt sem körlum í raun og telur mikilvægt að feminísk sjónarmið rúmist ekki aðeins í stjórnmálum heldur séu nauðsynlegur hluti þeirra. Í sex efstu sætum Bjartrar framtíðar á framboðslistum til Alþingiskosninga er hlutfall kvenna 55,6%. Til að konur og sjónarmið kvenna fái hljómgrunn á þingi og hafi þar áhrif, verða þær að fá stuðning til að komast á þing. Það er möguleiki með að kjósa Bjarta framtíð.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×