Innlent

Forsetafrúin á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Forsetafrúin Eliza Reid með taflborð. Grænlensk skólabörn fyrir aftan. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, til vinstri, og Jens Borch Scharnberg, skólastjóri í Kangerlussuaq, til hægri.
Forsetafrúin Eliza Reid með taflborð. Grænlensk skólabörn fyrir aftan. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, til vinstri, og Jens Borch Scharnberg, skólastjóri í Kangerlussuaq, til hægri. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Forsetafrúin Eliza Reid fór í sína fyrstu utanlandsferð í gær sem forsetafrú Íslands þegar hún fagnaði nýrri flugleið Flugfélags Íslands til Grænlands og afhenti börnum í Kangerlussuaq taflsett frá Hróknum. 

Meðan Guðni Th. Jóhannesson er í Brasilíu, þar sem hann heiðrar ólympíumót fatlaðra í sinni fyrstu utanlandsferð sem forseti, skrapp forsetafrúin Eliza Reid til Grænlands í gær með einni af nýju Bombardier-vélum Flugfélags Íslands. Tilgangurinn var að fagna nýrri flugleið til Kangerlussuaq, sem er fimmti áfangastaður Flugfélagsins á Grænlandi. Flugvöllurinn var áður þekktur sem Syðri-Straumfjörður.

Þar flutti forsetafrúin ávarp þar sem hún fagnaði því sérstaklega að Grænland skyldi verða fyrsta landið sem hún heimsótti sem forsetafrú. Ekki aðeins væri Grænland næsta nágrannaland Íslands heldur væri Kanada, þar sem hún ólst upp, næsta nágrannaland Grænlands á hina hliðina.

Forsetafrúin afhenti grænlenskum börnum taflsett að gjöf frá Flugfélaginu og Skákfélaginu Hróknum en fór síðan í skoðunarferð um stórbrotna náttúru Grænlands og sá þar meðal annars sauðnaut. Myndir frá heimsókninni verða sýndar í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Sauðnaut skammt utan við Kangerlussuaq í gær.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×