Fótbolti

Eiður Smári þjálfar efnilegar stelpur í fótboltaskóla Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári kennir stelpum nokkur góð trikk.
Eiður Smári kennir stelpum nokkur góð trikk. mynd/barcelona
Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins frá upphafi, er einn af þjálfurum Barcelona í fótboltaskóla félagsins ætluðum ungum stúlkum sem staðið hefur yfir á Valsvellinum undanfarna daga.

Fjallað er um þetta verkefni á heimasíðu Barcelona en þetta er í fyrsta sinn sem Katalóníurisinn er með fótboltaskóla fyrir stúlkur. Alls taka 295 stúlkur þátt í skólanum sem lýkur á morgun.

Eiður Smári spilaði fyrir Barcelona frá 2006-2009 og skoraði 18 mörk í 112 leikjum í öllum keppnum fyrir félagið. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur spilað með þessu risaliði.

Guðni Th. Jóhannesson, nýr forseti lýðveldisins, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Eiður Smári verða á meðal þeirra sem taka þátt í lokaathöfninni á morgun.

Barcelona er að bæta í kvennafótboltann hjá sér en liðið varð að atvinnuliði í ágúst í fyrra. Það var stofnað 1988 og er nú þegar orðið eitt sigursælasta félagið á Spáni.

Í viðtali við Vísi á dögunum sagði Carles Vilarrubí, varaforseti Barcelona, að hvergi væri betra að halda fyrsta fótboltaskólann fyrir stúlkur en á Íslandi.

„Það er ekki hægt að velja betri stað til að þróa verkefni en á Íslandi. Bæði er hefðin fyrir kvennafótbolta mikil á Íslandi og þá er tenging við Ísland í gegnum Eið Smára Guðjohnsen, fyrsta Íslendinginn sem spilaði fyrir Barcelona og eina af táknmyndum félagsins,“ sagði Carles Vilarrubí.

mynd/barcelona



Fleiri fréttir

Sjá meira


×