Innlent

Skýrslur teknar hjá Móður jörð

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Ólafsdóttir hvetja til þess að notkun sjálfboðaliðasamtaka á borð við WWOOF verði leyfð hér á landi.
Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Ólafsdóttir hvetja til þess að notkun sjálfboðaliðasamtaka á borð við WWOOF verði leyfð hér á landi. vísir/Valli
AFL, Vinnumálastofnun og starfsmenn Ríkisskattstjóra fóru í síðustu viku í Vallanes til þess að kanna aðstæður verkafólks við búið Móðir Jörð. Á staðnum voru fimm sjálfboðaliðar við garðyrkjustörf, flestir erlendir og nýkomnir.

Í tilkynningu Afls kemur fram að forráðamenn Móður Jarðar hafi sagt sjálfboðaliðana á vegum samtaka sem sendi fólk víða um heim til að vinna sjálfboðastörf, svo sem við umhverfisvæna jarðrækt. Einnig kom fram í skýringum þeirra að um einhvers konar námssamninga væri að ræða.

Lögregla tók skýrslu af sjálfboðaliðum. Lögð verður fram kæra vegna málsins vegna brota á reglum um atvinnu útlendinga.

Austurfrétt fjallaði um málið fyrr í mánuðinum, en 11.júní sendu forsvarsmenn lífræna búsins í Vallanesi, Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir, frá sér yfirlýsingu og saka AFL Starfsgreinafélag um dylgjur. Þau nýti sér starfsemi sjálfboðaliðasamtaka, WWOOF, sem séu viðurkennd í öðrum löndum. Samtökin veiti mikilvægan stuðning við lífrænan landbúnað.

„Við teljum mikilvægt að þessari tegund sjálfboðaliðastarfs sé fundinn farvegur innan kerfisins,“ segir í yfirlýsingu þeirra. Þess má geta að Svíþjóð, Noregur og Danmörk taka þátt í WWOOF samstarfi.

Sverrir Mar Albertsson hjá Afli segir sjálfboðaliðastörf í þjónustugreinum og landbúnaði eins og faraldur um þessar mundir og meinsemd á íslenskum vinnumarkaði.

„Við höfum samið um lágmarkskjör í landbúnaði sem á að virða,“ segir hann. Félagsleg undirboð verði ekki liðin.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×