Innlent

Nýr skóli býður upp á sérnám í tónlist til stúdentprófs

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson Vísir/Anton Brink

Ríkisstjórnin hefur að tillögu menntamálaráðherra samþykkt að settur verði á laggirnar framhaldsskóli sem býður upp á sérhæfingu í tónlist. Miðað er við að skólastarf hefjist í haust.

„Það er framfaraskref fyrir tónlistarlífið að verði boðið upp á sérnám í tónlist sem leiða mun til stúdentsprófs“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur nú í samstarfi við Ríkiskaup að undirbúningi auglýsingar eftir aðilum til að setja á fót og reka slíkan skóla. Fyrirhugað er að gera samning um kennslu allt að 200 nemenda sem þreyta inntökupróf, óháð lögheimili þeirra. Inngöngu í skólann geta fengið nemendur annarra framhaldsskóla standist þeir inntökupróf.

Málefni tónlistarskóla í Reykjavík voru talsvert í umræðunni í vetur vegna fjárhagserfiðleika. Í kjölfarið stefndu tónlistarskólarnir Reykjavíkurborg en niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur þann 15. nóvember síðastliðinn var að Reykjavíkurborg hefði verið heimilt að fella niður greiðslur til tónlistarskólanna þrátt fyrir að lagaleg ábyrgð borgarinnar á málefnum tónlistarskólanna væri skýr.

„Það er ljóst að stofnun tónlistarskólans ætti að bæta þessa stöðu verulega. Ég tel tónlistarmenntun gríðarlega mikilvæga og fannst vont að sjá í hvað stefndi í málefnum tónlistarskólanna í borginni.”

Hann segir ríkið muni áfram styðja við annað tónlistarnám á framhaldsstigi víðs vegar um landið.

„Ég tel að með þessum aðgerðum náist fram góð lausn. Sveitarfélögin munu áfram bera ábyrgð á öðru tónlistarnámi á framhaldsstigi en því sem fer fram í hinum nýja tónlistarskóla og ríkið mun styðja við það starf með fjárframlögum samkvæmt samningi.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. apríl.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.