Viðskipti innlent

Cameron beittur þrýstingi til að taka á skattaskjólum

Sæunn Gísladóttir skrifar
David Cameron hefur áður talað um að beita sér gegn skattaskjólum.
David Cameron hefur áður talað um að beita sér gegn skattaskjólum. Vísir/EPA
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur sætt pressu undanfarna daga til að taka á skattaskjólum í ljósi þess að fjölmargir ríkir einstaklingar hafa nýtt sér eyjur á bresku yfirráðasvæði til að stofna aflandsfélög til að forðast skatta. Þrýstingurinn kemur í kjölfar leka frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca á Panama-skjölunum svokölluðum, þar sem kemur fram að 100 þúsund aflandsfélög fundust á Bresku Jómfrúaeyjunum.

Cameron hefur einnig verið í sviðsljósinu vegna tengsla föður hans, Ians Cameron, við aflandsfélag í skattaskjóli.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur lýst því yfir að ríkisstjórnin þurfi að taka á skattsvikum. Hann lagði til í ræðu í gær að Bretland myndi setja beinar skattareglur á breskum yfirráðsvæðum til þess að ganga úr skugga um að löndin fylgdu breskum skattareglum. Samkvæmt frétt BBC um málið er talið að Bretland hafi stóru hlutverki að gegna í umræðunni þar sem stór hluti skattaskjóla sé á breskum yfirráðasvæðum, meðal annars á Bresku Jómfrúaeyjunum og Ermarsundseyjunum.

Einhver lönd sem hafa tengst af­landseyjum hafa nú þegar hert skattareglur, má þar nefna Sviss, Ermarsundseyjarnar og Lúxemborg, en önnur lönd, meðal annars Panama og Bresku Jómfrúaeyjarnar, hafa verið gagnrýndar fyrir að gera ekki nóg.

Í næsta mánuði mun Cameron stýra alþjóðlegum leiðtogafundi í London um skattasvik og skattaskjól. Frá árinu 2009 hafa nú þegar sjö hundruð samningar verið undirritaðir til að ýta undir gagnsæi í skattamálum á alþjóðavettvangi.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum þann 6. apríl


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×